staða atvinnumála.
Frú forseti. Í Kína skapa stjórnvöld um 1 milljón nýrra starfa í hverjum einasta mánuði. Það er nefnilega auðvelt að skapa störf en þau störf sem ríki geta skapað á færibandi eru ekki endilega áhugaverð, gefandi, arðbær eða samfélagslega hagkvæm. Mér finnst kínverskur vinnumarkaður sýna það vel. Þar vinnur fjöldi manna óþörf störf, svo sem að opna dyr, stimpla pappíra sem svo er hent eða sinna eftirliti þar sem eftirlits er ekki þörf.
Vandinn felst í því að skapa umhverfi þar sem atvinnulífið sér um sig sjálft og hver og einn getur fundið sér starf við sitt hæfi. Stjórnmálamönnum verður tíðrætt um auðlindir sem þarf að nýta. Fólkið í landinu er okkar helsta og dýrmætasta auðlind, þekking þess, hugmyndir og lífskraftur. Það þarf að virkja. Fólkið sjálft veit best hvar styrkleikar þess liggja sem og áhugasvið og hæfileikar. Ríkið á að mínum dómi ekki að skapa störf. Það á að tryggja lífvænlegar aðstæður fyrir atvinnulífið. Hátt vaxtastig, hækkuð tryggingagjöld, stökkbreyttir höfuðstólar lána og gjaldeyrishöft, sem og ofurskattar, eru ekki til þess fallin að stuðla að heilbrigðu og sjálfsprottnu atvinnulífi. Það er mikilvægt að virkja frumkvæði fólks og hvetja það til virkni en ríkið á að setja leikreglurnar.
Þegar stjórnmálamenn fara af stað og lofa lausnum, álveri hér og gagnaveri þar, er oft eins og lömun leggist yfir svæðið, fólk hættir að reyna að skapa sér störf sjálft og fer að bíða, bíða eftir því að ríkið komi með töfralausn til bjargar svæðinu. Ég trúi ekki á slíkar töfralausnir.