staða atvinnumála.
Virðulegi forseti. Ég get tekið heils hugar undir orð síðasta ræðumanns, ríkið á ekki að skapa störf. Það sem ég fer fram á, það sem kjósendur á Suðurnesjum fara fram á, það sem kjósendur í tveimur hreppum við neðri hluta Þjórsár fara fram á er að fá frið til að byggja upp þær atvinnugreinar og nýta þau atvinnutækifæri sem liggja á svæði þeirra. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra um rammaáætlunina: Hvað líður henni? Af hverju er hún strand í þingflokki Vinstri grænna?
Það var afar athyglisvert að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra sem þuldi upp fréttatilkynningu sem ég minntist á í ræðu minni. Ég ætla ekki að gera honum það upp að honum þyki 9% atvinnuleysi ásættanlegt. Ég trúi því ekki og veit að svo er ekki, en það er ekki verið að nýta öll þau tækifæri og alla þá möguleika sem við höfum til að skapa atvinnu. Ég er sammála því að verðmætasköpunin verður ekki til hjá hinu opinbera. Þess vegna eru verkefni eins og göngustígaverkefnið Græni trefillinn sem átti að skapa 230 störf í fyrra, ef mig ekki misminnir, svo sem störf en það eru störf sem eru kostuð af okkur skattborgurum, ekki ný verðmætasköpun inn í þjóðfélagið. Hún verður ekki til þar.
Hæstv. fjármálaráðherra kom í undirbúinni ræðu með margar upplýsingar, allt í lagi, en ég furða mig á því að hann hafi tekið það sérstaklega fram að ég hefði í framsögu minni ekki getað séð neitt annað en álver þegar ég tók það sérstaklega fram að ég væri ekki að tala bara um álver. Ég gerði það meðvitað til að fá ekki þá gusu á mig sem ég býst alltaf við. Ég er ekki að tala bara um stóriðju. Ég er að tala um heilsutengda ferðaþjónustu, (Forseti hringir.) rekstur skurðstofa sem Vinstri grænir banna og rekstur viðhaldsþjónustu sem Vinstri grænir (Forseti hringir.) banna. Það er „eitthvað annað“ og það er ekki sanngjarnt að vera með þann málflutning að við séum alltaf að tala um álver.