138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[13:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það gleður mig stórkostlega að hv. þingmaður hafi ekki bara verið að tala um álver og hafi áhuga á atvinnusköpun almennt. Ég fagna því. Þar með er væntanlega sanngirninnar vegna sömuleiðis rétt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyni ekki að snúa út úr orðum mínum og láti að því liggja að ég sé ánægður með 9% atvinnuleysi eða að ég telji það allt í lagi af því að það er atvinnuleysi í Evrópu. Það er gamli stíllinn í umræðunum sem ég held að hafi lítið upp á sig. Ég er aðallega að vísa til hv. þm. Jóns Gunnarssonar en ekki málshefjanda. (Gripið fram í.)

Ég legg áherslu á að það markaðsátak sem nú stendur yfir í ferðaþjónustunni, að reyna að snúa þar vörn í sókn, er gríðarlega mikilvægt. Ég bind miklar vonir við að það skili okkur árangri. Horfur í þeim efnum voru geysilega bjartar um síðustu áramót. Þess vegna féll skuggi yfir þegar eldgosið fór að trufla og olli mikilli röskun á þeirri starfsemi, dró úr bókunum og jafnvel urðu afpantanir umtalsverðar. Í þetta verjum við umtalsverðum fjármunum, 700 millj. kr., þar af 350 millj. kr. úr ríkissjóði. Er það ekki „eitthvað“ sem verið er að reyna að gera þrátt fyrir erfiðar aðstæður? Jú, ég held það.

Það er enn verið að auka á fjárveitingar til viðhalds opinberra verkefna í landinu um 500 millj. kr. Unnið verður fyrir samtals 3,2 milljarða kr. við viðhald opinbers húsnæðis í ár, meira en gert var árlega í góðærinu. Er það ekki „eitthvað“ sem verið er að gera? Jú, ég held það.

Það eru teikn á lofti um að það sé að losna um aðgang að erlendu fjármagni. Það er fyrst og fremst frostið í samskiptum okkar við erlenda fjárfestingarbanka og aðra banka sem hefur stöðvað fjármagnsfrekar stórframkvæmdir, svo sem í orkumálum. Það liggur fyrir og nú er sem betur fer að rofa örlítið til í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Þriggja mánaða verðbólga er komin undir 5%, stýrivextir hafa lækkað um 1,5 prósentustig frá áramótum. Slíka þróun þurfum við áfram. Gengi krónunnar er að styrkjast. Þar með dregur úr því mikla samkeppnisforskoti sem útflutnings- og samkeppnisgreinar hafa notið að undanförnu. Í staðinn þurfa þær að fá (Forseti hringir.) lægri verðbólgu og lægri vexti og hagstæðari skilyrði að því leyti. Þá er líka að leggjast hér grunnur að stöðugu (Forseti hringir.) ástandi sem mun koma hjólum hins almenna atvinnulífs af stað. Það er það sem þetta snýst um umfram allt annað.