fjármálafyrirtæki.
Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um breytingar á … (Forseti hringir.)
(Forseti (ÞBack): Forseti biður þingmann afsökunar en aðra hv. þingmenn um að hafa hljóð.)
Virðulegi forseti. Við ræðum hér um lög um fjármálafyrirtæki eða nánar tiltekið breytingar á þeim. Þetta hafa verið mjög upplýsandi umræður bæði í nefndinni og sömuleiðis hér í þingsalnum. Í örstuttu máli er sjónarmið okkar sjálfstæðismanna þannig að við teljum ekki að málið sé tilbúið til að klára það. Það væri mun skynsamlegra að gefa okkur betri tíma til þess að vinna málið. Við höfum tilgreint sérstaklega þau efnisatriði sem við teljum mikilvægt að ræða betur.
Við erum með tvær breytingartillögur við frumvarpið sem eru mjög mikilvægar. Annars vegar að skylda banka til þess að selja þau fyrirtæki sem þeir hafa tekið yfir. Það er nokkuð um það nú þegar og mun verða meira í framtíðinni, innan tólf mánaða. Ef einhverjar aðstæður eru uppi að það er ekki hægt, geti þeir sótt um undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu. Við finnum núna að staðan er ójöfn á milli fyrirtækjanna sem lifðu af hrunið og þeirra sem eru í eigu bankanna. Það er afskaplega mikilvægt að bankarnir sitji ekki uppi með fjölda fyrirtækja. Það gæti auðveldlega gerst ef við samþykkjum ekki þessa breytingartillögu.
Á sama hátt leggjum við til bráðabirgðatillögu sem gengur út á að upplýst verði hverjir eru eigendur bankanna og að skilanefndunum verði skylt að ganga alla leið. Ekki bara upplýsa um eignarhaldsfélög sem eru skráð fyrir því heldur hverjir eru á bak við þau. Ég tel að það sé lífsnauðsyn fyrir íslenskt efnahagslíf að sú tillaga nái fram að ganga og að við sjáum hverjir eru að eignast bankana eins og staðan er í dag.
Síðan er algjört lykilatriði — við getum ekki klárað þetta mál án þess að koma með reglur um eignarhald fjármálafyrirtækjanna og viðskiptabankanna. Við höfum lært af biturri reynslu að það er óskynsamlegt að hafa ekki banka og fjármálafyrirtæki í dreifðri eignaraðild. Núna, þegar við vinnum í þessu frumvarpi sem er grundvallarfrumvarp um fjármálafyrirtækin, getum við ekki gengið frá málinu án þess að vera búin að festa reglur þar um.
Síðan er mjög mikilvægt að við tökum á hlutum eins og sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, samspil á milli fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, hvort það sé skynsamlegt að aðskilja þetta að öllu leyti eða fara aðrar leiðir til að ná sama markmiði. Hvort skynsamlegt sé að koma á áfrýjunarvettvangi fyrir fjármálafyrirtæki svipað og er í samkeppnismálum. Endurskoða lög um Fjármálaeftirlitið, sem er algjör nauðsyn. Skoða stöðu skuggastjórnenda með það að markmiði að festa betur ábyrgð þeirra. Framtíð sparisjóðakerfisins er undir. Við þurfum að skoða lög um endurskoðendur, kanna það og meta hvort rétt sé að leyfa fjármálastofnunum að eiga tryggingafélög og öfugt. Við þurfum að endurskoða frá grunni lög um Kauphöllina og leggja á hana auknar skyldur hvað varðar eftirlit og ábyrgð gagnvart fjárfestum. Sömuleiðis þurfum við að meta hvort ekki sé rétt að setja reglur um afleiðusamninga og utanþingsviðskipti og ýmis kauphallarviðskipti. Einnig teljum við sjálfstæðismenn skynsamlegt að fara fram á það við OECD að gera sérstaka úttekt á umhverfi fjármálamarkaða á Íslandi, sérstaklega í samhengi við þróun alþjóðlegs regluverks.
Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt allra hluta vegna, og ég held að við höfum fengið skýr skilaboð um það í sveitarstjórnarkosningunum sem voru núna um helgina, að við tökum upp breytt vinnubrögð og aðrar áherslur. Ég legg til að við tökum málið sérstaklega fyrir, skipum í öfluga nefnd þar sem ekki eru bara fulltrúar stjórnmálasamtakanna heldur líka hagsmunaaðila. Ég vil kalla til sérfræðinga sem við þurfum til að skoða þetta í sumar og þá sérstaklega þá þætti sem ég nefndi. Við missum engan tíma, vinnan í nefndinni hefur verið um margt mjög góð og umræðan hér í þinginu ekki síður. Það er grunnur sem við getum byggt á til framtíðar en við getum ekki gengið frá þessu máli eins og það er núna, (Forseti hringir.) það vantar allt of mikið upp á. Við skulum nota sumarið til þess að bæta þar (Forseti hringir.) um.