138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Fyrst varðandi tólf mánaða tillöguna þá erum við alveg til umræðu um að stytta þann tíma. Það er alveg sjálfsagt að fara yfir það, þetta er að hámarki tólf mánuðir. Það er skynsamlegra og svipa á bankana að selja þessi fyrirtæki ef þeir þurfa sérstaklega að sækja um að eiga fyrirtækin lengur. Að okkar áliti er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir því, eins og þarna er, að Fjármálaeftirlitið eigi með óljósum hætti að sjá til þess að fyrirtækin verði seld. Það verða næg verkefni núna á könnu Fjármálaeftirlitsins og svo sannarlega ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Það er miklu skýrara að hafa reglurnar á hreinu hvað þetta varðar.

Ef hv. þingmaður er að leggja til að stytta tímann í níu eða sex mánuði erum við til viðræðu um það. Við mundum styðja þá leið, ég lýsi því yfir að við munum styðja það. Ég vonast til þess að við getum náð sátt um að stytta tímann, það er bara sjálfsagt.

Sérstakar aðstæður eru varðandi eigendurna. Það er mjög mikilvægt að við greinum hverjir þeir eru. Það eru kröfuhafarnir. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki víst fyrr en búið er að taka afstöðu til kröfunnar. Til að fá niðurstöðu getur verið um dómsmál að ræða. Það breytir því ekki að kröfur eru samþykktar jafnt og þétt og við getum alveg, ef við ætlum okkur, sett inn jafnóðum hverjir það eru sem fá samþykktar kröfur. Sömuleiðis getum við haft á lista þá sem eru með ósamþykktar kröfur, þetta eru bara framkvæmdaratriði. En það er algjört lykilatriði að við náum niðurstöðu í þessu.

Ég hef fylgjast með bönkunum og er með tillögu um að við þurfum að rannsaka sérstaklega hvað hefur gerst í bönkunum frá hruni. Ég er ekki sáttur við það hvernig unnið er og ég veit ekki af hverju það er gert, (Forseti hringir.) en ég veit að það þarf að rannsaka það og skoða. (Forseti hringir.) Samþykkt þessarar tillögu er liður í hinu títtnefnda gagnsæi.