138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mat það þannig þegar hv. þingmaður las úr greinargerðinni að hann væri í rauninni að mæla með 12 mánaða reglunni, þetta væri röksemd fyrir því. Ástæðan fyrir því að við viljum hafa tímamörk er sú að þá er það klippt og skorið að viðkomandi banki geti ekki átt þetta lengur en í 12 mánuði. Ef einhverjar sérstakar ástæður eru þurfa þeir að koma til Fjármálaeftirlitsins og spyrja: Megum við út af þessu og þessu og þessu, af einhverjum rökstuddum ástæðum, vera lengur með þetta fyrirtæki? Pressan er að selja, losa þetta. Við sjáum núna um allt land stór fyrirtæki í eigu bankanna ryðja litlum samkeppnisaðilum út — í skjóli bankanna — og við verðum að bregðast við þeirri þróun.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um eigendurna fannst mér það mæla með því að fara þá leið sem við viljum fara. Eins og hann nefndi ganga þessar kröfur kaupum og sölum, virðulegi forseti. Það er ekki ólíklegt að einhverjir séu núna að reyna að eignast bankana. Það er bara mjög líklegt. Af hverju megum við ekki vita af því? Er ekki rétt að upplýsa okkur um það? Ég held að það sé alveg lykilatriði. Ég er eiginlega alveg sannfærður um að einhverjir aðilar eru að reyna að yfirtaka bankana.

Hv. þingmaður segir að kröfuhafarnir, eigendur bankanna, hafi engan aðgang að stjórninni. Það er þá spurning hver ráði þessum bönkum. Ríkið á lítinn hluta, Bankasýslan er með það umboð, og ekki segist ríkið stýra þessu. Hver er að stjórna bönkunum núna? Það er alveg grundvallaratriði að við vitum það. Það er grundvallaratriði að við skoðum þessi mál. Þess vegna lögðum við fram tillögu um rannsókn en við verðum að vita hvað er í gangi og hvaða spotta er verið að toga í. Gegnsæið (Forseti hringir.) um kröfuhafa, sem sagt eigendur, er algjört lykilatriði í því máli.