fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Skoðun mín á þessu ákvæði hefur í sjálfu sér ekkert breyst vegna þessara upplýsinga því þær lágu að sjálfsögðu fyrir og eru í þessu ágæta blaði. Ég gagnrýndi þetta einnig þegar við ræddum um vátryggingafyrirtækin. Hins vegar held ég að ef við ætlum að byggja eingöngu á menntun eða slíku muni okkur alltaf skorta ákveðna sýn á samfélagið og jafnvel inn í stjórnir.
Varðandi það sem kom fram hjá hv. þingmanni um hæfi stjórnenda, reynslu þeirra og annað þá held ég að mjög mikilvægt sé að við útilokum ekki aðila sem hafa jafnvel áratugareynslu og hafa staðið sig vel í sínum fyrirtækjum eða á fjármálamarkaðinum eða inni í bönkunum, eða hvernig sem það er, þó að þeir hafi ekki akkúrat það sem teiknað er inn í þetta frumvarp. Vissulega er hægt að veita undanþágu en það er þá Fjármálaeftirlitsins að meta það á hverjum tíma hvort undanþága verði veitt frá þessari menntunarkröfu. Það kann að vera að hægt sé að setja reglur varðandi þessa undanþágugrein hjá Fjármálaeftirlitinu þannig að aðilar sem klárlega eru mjög færir til að gegna þessum stjórnunarstöðum fari þar í gegn.
Ég vona að enginn hafi misskilið orð mín hér áðan þannig að ég sé að gera lítið úr menntun eða lítið úr þeim sem hafa menntað sig sérstaklega í þessum greinum. Ég minnist þess að aðalleikarar bankahrunsins voru með alls konar fjármálagráður og einn þeirra reyndar líklega með verslunarpróf. Síðan var einhver fjármálaverkfræðingur, ég veit ekki einu sinni hvað það er, svo ég segi alveg satt, þannig að gráðurnar allar sem voru þarna á sveimi voru ekki það sem hélt lífi í fyrirtækjunum heldur einhver önnur sjónarmið. Hvort það eigi svo að láta þá sem fara í stjórnir eða stjórnunarstöður hjá bönkunum gangast undir einhvers konar siðferðispróf er hins vegar önnur spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur.
Eitt sem ég verð nú þegar að viðurkenna að ég man ekki úr þessu frumvarpi er hvernig kröfurnar eru, t.d. hvernig ferilskrá þeirra sem geta sest þarna í stjórn er hvað varðar aðkomu þeirra að atvinnulífinu áður. Er það eitthvað sem við viljum skoða eða er sérstaklega tekið á því í frumvarpinu? Ég viðurkenni að ég man það ekki en sýn mín á þetta ákvæði hefur ekkert breyst.