fjármálafyrirtæki.
Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem við ræðum hér, sem er frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, birtist svar ríkisstjórnarinnar við efnahagshruninu og falli bankakerfisins. Eins og ég kom inn á í fyrstu ræðu minni um þetta mál er sá ljóður á ráði þeirra sem að frumvarpinu standa að í því er ekki tekið á þeim meginálitaefnum sem upp hafa komið í kjölfar efnahagshrunsins og bankahrunsins, þ.e. að með frumvarpinu er í engu tryggt að sú saga sem við höfum orðið vitni að endurtaki sig ekki. Hér er á ferðinni pólitík sem gengur út á smáskammtalækningar en málið er algjörlega laust við það að fela í sér einhverja heildarsýn eða framtíðarlausn á því sem aflaga fór í aðdraganda bankahrunsins og í hruninu. Frumvarpið endurspeglar því ekki það sem það ætti að endurspegla, þ.e. að ríkisstjórnin hafi dregið einhvern lærdóm af því sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og einhvern lærdóm sem máli skiptir af efnahagshruninu. Með öðrum orðum má segja að það sem veki mesta athygli í frumvarpinu sé það sem ekki kemur fram í því.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Þorleifur Gunnlaugsson, fráfarandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, að forusta þess flokks þurfi að hugsa sinn gang í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna.
Hann segir, með leyfi forseta:
„Við þurfum að taka upp mál sem varða lýðræðisleg vinnubrögð og þora að ræða um hlutina.“
Það mál sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, ber þess einmitt merki að þessi ríkisstjórn sé ekki reiðubúin til að ræða þá hluti sem mestu skipta.
Í sama viðtali segir Þorleifur Gunnlaugsson að hann telji að forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé í litlum tengslum við alþýðu manna og þar sé á ferðinni menntafólk í glerhúsi.
Ég ætla ekki að gera neinn ágreining um það sem Þorleifur Gunnlaugsson sagði um forustu Vinstri grænna en þetta er akkúrat það sem fram kemur í frumvarpinu, forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar Samfylkingarinnar líka er á harðahlaupum undan þeim stóru málum sem fólkið í landinu krefst að verði tekin til skoðunar. Í þetta frumvarp vantar alla framtíðarsýn um það hvernig menn vilja í framtíðinni sjá að fjármálamarkaðir og fjármálastarfsemi á Íslandi séu uppbyggð. Í frumvarpinu er ekkert vikið að hugsanlegri sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands, þ.e. engar reglur eða tillögur um breytingar á þeim reglum sem gilda um eignaraðild að bönkunum. Hæstv. ríkisstjórn skilar auðu þegar hún er spurð hvernig hún vilji haga eignarhaldi á fjármálastofnunum til framtíðar. Hún hefur engin svör við því hvort hún telji að æskilegt sé að eignarhald á þessum mikilvægu fyrirtækjum sé dreift eða ekki. Það er auðvitað mjög sérstakt í ljósi þess að við, þingmenn á hinu háa Alþingi, höfum kallað eftir því að við séum upplýstir um það hverjir eigi hina nýeinkavæddu viðskiptabanka, Arion og Íslandsbanka. Þegar við spyrjum spurninga um það hverjir eigi þessa banka fáum við engin svör, hvorki frá hæstv. fjármálaráðherra né öðrum hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni.
Mér þætti t.d. ákaflega gott ef formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, gæti upplýst mig um það hér og nú hverjir eru eigendur Arion banka og hverjir eru eigendur Íslandsbanka. Mér þætti ósköp vænt um það ef hv. þingmaður mundi upplýsa mig um það hvaða skoðanir hún hefur varðandi dreift eignarhald á fjármálafyrirtækjum.
Við höfum sagt að einnig þurfi að endurskoða lög um Fjármálaeftirlitið og hugsanlega skoða ábyrgð skuggastjórnenda. Það þarf að koma með stefnumarkandi framtíðarsýn varðandi sparisjóðina, Alþingi þarf auðvitað að taka ákvörðun um það og hæstv. ríkisstjórnin þarf að birta einhverja framtíðarsýn um það hvort eðlilegt sé að fjármálastofnunum sé heimilt að eiga tryggingafélög eða ekki. Öllum þessum spurningum og mörgum, mörgum öðrum er ósvarað í því frumvarpi sem hér er.
Þess vegna tel ég, eins og Þorleifur Gunnlaugsson lýsti ágætlega í viðtali við Morgunblaðið í dag, að forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og forusta ríkisstjórnarinnar séu ekki í neinum tengslum við alþýðu manna í þessu landi vegna þess að það er alveg ljóst — þó svo að hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir hristi hér höfuðið í hliðarsal — að í þessu frumvarpi er ekki verið að svara þeim spurningum sem almenningur í landinu spyr og vill fá svör við. Almenningur vill fá einhverja framtíðarsýn varðandi stefnumörkun til framtíðar.
Ég hef verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að hér séu settar einhverjar reglur um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Ég vil að það komi sérstaklega fram vegna þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir spurði mig að því fyrr í þessari umræðu hvaða skoðanir ég hefði varðandi eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Ég minnist þess að þegar við ræddum í þessum þingsal fyrir allmörgum árum um hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp var tekist á um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum. Þá lögðum við, sem stóðum að því máli og studdum það, til að settar yrðu reglur um eignarhald á fjölmiðlum til að tryggja fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Þetta frumvarp tekur ekki á þessum atriðum þrátt fyrir það að reynslan hljóti að kenna okkur að tryggja þarf fjölræði og fjölbreytni á fjármálamarkaði.
Við horfðum upp á það í aðdraganda hrunsins að hér ríktu risastórar viðskiptablokkir sem margar hverjar mökuðu krókinn í krafti eignarhalds á fjármálafyrirtækjum og notuðu fjármálafyrirtækin til að fjármagna aðra starfsemi sína. Við hljótum að vilja brjóta þetta fyrirkomulag upp og ríkisstjórnin verður að koma með einhverja framtíðarsýn um hvernig hún vill haga þeim málum. Þetta reyndum við að gera 2003 og 2004 í tengslum við fjölmiðlamálið og tími er kominn til að ríkisstjórnin fari að svara því hver framtíðarsýn hennar er hvað varðar fjármálafyrirtækin vegna þess að um þau gilda nákvæmlega sömu sjónarmið og um fjölmiðlana, samfélagslega eru þetta gríðarlega mikilvæg fyrirtæki og mikilvægt að skýrar reglur gildi um eignarhald þeirra.
Auðvitað eru fjölmörg önnur atriði í þessu frumvarpi sem þarf að ræða. Ég vil sérstaklega geta breytingartillögu sem fram kemur í lið nr. 30 í breytingartillöguskjali meiri hlutans. Þar er lagt til að á eftir 44. gr. frumvarpsins komi ný grein þar sem segir, með leyfi forseta:
„Nú neytir slitastjórn heimildar samkvæmt framansögðu til að greiða kröfur að hluta eða fullu en ekki hefur verið til lykta leiddur ágreiningur um viðurkenningu kröfu, sem þeim gæti staðið jafnfætis í réttindaröð, og skal þá slitastjórn leggja á sérstakan geymslureikning fjárhæð sem svarar til greiðslu á þeirri kröfu eða upp í hana eins og sú greiðsla gæti hæst orðið samkvæmt kröfugerð hlutaðeigandi kröfuhafa. Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal innstæða geymslureikningsins ásamt áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafa hans hefur verið viðurkennd, en fé sem eftir kann að standa á reikningnum skal renna aftur til fjármálafyrirtækisins.“
Þetta er breytingartillaga, ný efnisgrein um gríðarlega mikilvæg sjónarmið sem varða geymslugreiðslur eða depóneringar og heimildir til handa slitastjórnum að inna slíkar greiðslur af hendi. Þessi sjónarmið hafa verulega þýðingu en hafa fengið litla sem enga umfjöllun í hv. viðskiptanefnd. Þetta er grundvallarbreyting á frumvarpinu og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem hefur í tengslum við allt þetta mál reynt að rækja skyldur sínar sem formaður nefndarinnar af sanngirni og heiðarleika, hlýtur að taka undir það með mér að það þyrfti að taka sérstaka umræðu um þetta mál í þinginu. Þessa nýju tillögu þarf að máta við hagsmuni í Icesave-málinu sem íslenska þjóðin tekst á við þessa daga og mánuði. Menn sjá að ef íslenska ríkinu eða Landsbankanum og slitastjórn Landsbankans er veitt heimild til að depónera þeim kröfum sem á þá standa frá Bretum og Hollendingum getur sú heimild verið alveg gríðarlega mikilvæg eða hefði verið það vegna þess að með því hefði Landsbankinn getað sparað sér gríðarleg vaxtagjöld og að sama skapi innheimt vaxtatekjur vegna þeirrar geymslugreiðslu sem hugsanlega mun fara fram vegna þeirra krafna sem uppi eru.
Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna í þessari (Forseti hringir.) umræðu, frú forseti, og þau hljóta að koma til gagngerrar skoðunar þegar málið kemur aftur til nefndar.