138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Þingmaðurinn gagnrýnir að ekki sé mælt fyrir um dreift eignarhald í frumvarpi um fjármálafyrirtæki og spyr mig sem formann viðskiptanefndar hver sé skoðun mín og nefndarinnar á því að ekki sé vitað hverjir eigi bankana. Ég vil geta þess að viðskiptanefnd var þeirrar skoðunar að það væri ótækt að almenningur, ekki síst viðskiptavinir bankanna, hefðu ekki upplýsingar um eignarhald á nýju bönkunum. Því er að finna í breytingartillögum meiri hlutans bráðabirgðaákvæði V sem heimilar slitastjórnum að afhenda kröfuskrár til þeirra sem óska eftir að fá þær í hendur. Allir sem hafa áhuga á að vita hverjir eiga óbeint í nýju bönkunum geta því fengið upplýsingar um þessa kröfuhafa.

Hvað varðar dreift eignarhald er hægt að halda því fram að eignarhald á bönkum hafi aldrei verið jafn dreift og núna ef maður skoðar bara fjölda krafna sem hefur verið lýst í þrotabúin. Þær eru taldar upp í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 9, t.d. eru kröfur sem hefur verið lýst í þrotabú Kaupþings banka rúmlega 28.000 en að vísu getur sami einstaklingurinn eða fyrirtækið verið með fleiri en eina kröfu.

Síðan vil ég geta þess að sparisjóðirnir falla undir þessi lög um fjármálafyrirtæki og þar er um að ræða (Forseti hringir.) dreift eignarhald.