138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, jú, það er alveg rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að sparisjóðirnir falla undir það frumvarp sem við ræðum hér en það sem skortir í frumvarpið og alla stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar er framtíðarsýn um stöðu sparisjóðanna í fjármálakerfi okkar. Við vitum að sparisjóðirnir hafa orðið fyrir gríðarlegum áföllum, ekki bara í Reykjavík heldur úti um allt land, og það skortir alla framtíðarsýn og stefnumörkun frá hæstv. ríkisstjórn um það hvernig menn ætli að haga sparisjóðakerfinu og halda því uppi til framtíðar.

Það er einnig rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur — ég tek undir það og veit að hv. viðskiptanefnd hefur gagnrýnt að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar um það hverjir eiga bankana, þ.e. Arion banka og Íslandsbanka, sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon einkavæddi bakdyramegin eða nánast með leynd. Þetta hefur verið gagnrýnt.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að komið er til móts við þetta í bráðabirgðaákvæði V í frumvarpinu. Sú breytingartillaga er í rauninni afurð þeirrar baráttu sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa háð en við teljum að það þurfi að ganga lengra en fram kemur í þessari breytingartillögu. Það þarf að upplýsa um það hverjir eru á bak við þessi eignarhaldsfélög og hvernig eignarhaldinu er í rauninni háttað. Ég veit að þegar ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur að því hverjir séu eigendur Arion banka og Íslandsbanka í dag mun hún ekki, þrátt fyrir góðan vilja, geta svarað mér þeirri spurningu, einfaldlega vegna þess að hún veit það ekki sjálf frekar en aðrir þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna.