fjármálafyrirtæki.
Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um hertar reglur á fjármálamarkaði. Ég kom nokkrum sinnum upp í þennan ræðustól til að ræða þetta mál fyrir þinghlé sem var gert út af sveitarstjórnarkosningum og hafði margt við málið að athuga. Það sem ég tel vera hættulegast við málið er að það búi til einhvers konar friðþægingu og falska öryggiskennd. Það er ljóst að hér er ekki gengið nærri því nógu langt og að ekki er tekið á þeim alvarlegu ágöllum sem eru á löggjöf um fjármálamarkaði á Íslandi. Því vil ég leggja til að við tökum okkur til og skoðum reglugerðarammann um íslenska fjármálamarkaði heildstætt — að það sem snýr að fjármálafyrirtækjunum sjálfum, eftirlitshlutverkinu, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og Kauphöllinni verði allt saman skoðað heildstætt.
Ljóst er að það er til mikils unnið að hafa góða, hagkvæma og sveigjanlega löggjöf og reglur um fjármálamarkaði. Bútasaumur sem þessi þjónar litlum öðrum tilgangi en að veita mönnum falska öryggiskennd, þrátt fyrir að margt gott sé í þessu frumvarpi. Því vil ég leggja til að við fáum, í krafti aðildar okkar að nokkrum alþjóðastofnunum, sérfræðinga til þess að gera heildstæða úttekt á laga- og reglugerðaumhverfi sem umlykur fjármálamarkaðinn hér á landi. Mér dettur helst í hug að OECD í París verði fengin til þess að framkvæma þá úttekt.
Eins og við vitum hefur margt farið úrskeiðis og það hafa komið fram margar skýringar á hruninu. Ég ætla aðallega að beina athyglinni að því sem snýr að reglugerðaumhverfinu. Margir hafa nefnt að það hafi komið upp gallar í pólitíska kerfinu. Það er eflaust rétt en fyrst og fremst tel ég hrunið stafa af ónógu eftirliti, virðingarleysi gegn þeim lögum og reglum sem umlykja markaðinn og kannski almennum sofandahætti Íslendinga allra, ekki bara þeirra sem starfa á Alþingi eins og sumir vilja vera láta.
Það er gríðarlega mikilvægt að hafa löggjöf um fjármálamarkaði sem er nógu sveigjanleg og leyfir nægilega mikið til þess að sá gríðarlegi ábati sem fjármálamarkaðir geta skapað fái að koma fram. Það er ekki klókt að banna einfaldlega hluti sem hafa birst á forsíðum blaðanna sem merki um veikleika í löggjöfinni, eins og er gert í sumum greinum þessa frumvarps. Það þarf að vera hugsun á bak við þetta. Hugsum okkur, svo ég taki bara handahófskennt dæmi, þessi löggjöf bannar að hlutabréf í bönkunum séu veðsett, að bannað sé að lána út á þau. Við fyrstu sýn hljómar þetta ágætlega en hvað ef tekið væri á því vandamáli sem nú er reynt að taka á með því að segja: Ef lánað er út á hlutabréf bankanna, eða eigin hlutabréf, þarf að draga það frá eiginfjárgrunni. Hvað gerir það áhættugrunninum? Það nær nákvæmlega sama tilgangi nema það myndar svigrúm, að í einhverjum algerlega sérstökum tilfellum sé þetta gert. Þetta er jákvæðari nálgun á málið en að banna þetta hreinlega eins og er gert í þessu frumvarpi. Ég er ekki að segja að ég mæli sérstaklega fyrir þessu heldur er þetta bara dæmi um hvað væri hægt að gera.
Ég sé að tíma mínum er lokið, frú forseti, þannig að ég vík úr ræðustóli.