fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Hv. þingmaður gagnrýnir að ekki skuli mælt fyrir um hversu lengi fjármálastofnanir geti átt fyrirtæki sem þær hafa að vissu leyti neyðst til að taka yfir. Ástæðan fyrir því að ekki er fjallað um það beint eða gerð tillaga um það í breytingartillögum meiri hlutans er sú að fyrirtæki koma í mörgum stærðum og gerðum þannig að erfitt er að meta og vita fyrir fram hvaða tímamörk eiga við um flest fyrirtæki. Síðan er líka ákveðin hætta á ef mörg fyrirtæki eru tekin yfir á sama tíma og eiga þar af leiðandi að fara í sölu eftir 12 mánuði eins og hv. þingmaður leggur til að þá verði eins konar brunaútsala á fyrirtækjunum.
Í ljósi mikillar óánægju í atvinnulífinu með hversu lengi bankarnir eru að losa sig við yfirtekin fyrirtæki er auðvitað sjálfsagt að skoða hvort á einhvern hátt sé hægt að þrengja heimildir þeirra til þess að reka yfirtekin fyrirtæki. Þetta frumvarp fer núna aftur til viðskiptanefndar. Ég geri ráð fyrir að það verði rætt þar.