138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka athugasemd hv. þingmanns, sem mér fannst vera bæði efnisleg og málefnaleg. Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Vitaskuld gerir maður sér grein fyrir því að sú hætta kann að skapast ef mörg fyrirtæki fara á markaðinn á sama tíma að það kunni að leiða til þess að verðmæti þeirra minnki og þar með eignir bankanna sömuleiðis og skaðinn verði meiri.

Þetta eru allt saman hlutir sem við hljótum að hafa í huga. En ef við þurfum að gæta þessa þá þurfum við líka að gæta að því að hafa einhverjar reglur sem gera það að verkum að þær aðstæður komi ekki upp í þjóðfélagi okkar að þessi fyrirtæki geti í rauninni haslað sér völl á kostnað annarra lífvænlegra fyrirtækja. Þá má segja sem svo að við færum úr öskunni í eldinn. Við héldum lífi í einu fyrirtæki, sem vissulega kunna að vera fullkomin rök fyrir, á kostnað annarra sem ekki njóta þeirra forréttinda að hafa þann öfluga bakhjarl sem eigandi í formi banka er.

Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, skuli taka svo jákvætt í ábendingu mína um að sérstaklega þurfi að huga að þessum efnum.

Meðalhófið er vandratað, ég geri mér grein fyrir því. Það er kannski ekki gott að setja svo strangar skorður að fyrirtæki geti ekki á einhvern hátt þróast á þessum tíma, mér er það alveg ljóst. En fyrr má nú vera ef það er þannig, eins og maður verður var við, að fyrirtækin stundi óeðlileg undirboð eða vinni þannig að það virki samkeppnishamlandi til lengri tíma litið.