138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég hygg að frumvarpið sem við ræðum hér, breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, sé eitt af þeim mikilvægari verkefnum sem við þingmenn tökum okkur fyrir hendur. Því ætla ég enn og aftur að lýsa yfir vonbrigðum mínum með hvernig frumvarpið er úr garði gert. Í athugasemdum við frumvarpið segir að það sé samið í kjölfar þess að nefnd hafi verið skipuð af viðskiptaráðherra 29. desember 2008 og komi í kjölfar hruns fjármálakerfisins á haustmánuðum 2008. Tilgangurinn með að breyta lögum var, svo ég vitni beint, með leyfi forseta: „… ekki síst með það að markmiði að komið yrði í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar endurtækju sig.“

Það er nefnilega þannig að það er ekkert í frumvarpi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem kemur í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir svipuðu hruni og var hér í október árið 2008.

Það er tæpur hálfur mánuður síðan við hófum 2. umr. um þetta frumvarp og frestuðum henni og höldum áfram hér í dag. Ég verð að lýsa yfir megnri óánægju minni, frú forseti, með að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki gefa sér tækifæri til þess að vera í þingsalnum og taka þátt í umræðu sem hlýtur að verða að fara fram, efnismikilli umræðu. Mér þykir það skjóta skökku við að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstaddur umræðu af þessu tagi og hefði í rauninni talið nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að huga að því að fresta hreinlega umræðunni um þetta mikilvæga frumvarp þangað til ráðherra getur verið viðstaddur.

Einn helsti galli frumvarpsins er að ekki er tekið á eignarhaldi fjármálafyrirtækja heldur þvert á móti. Það er verið að festa eignarhald á stærstu fjármálafyrirtækjum um einhver ókomin ár og við vitum ekki einu sinni hverjir eru helstu eigendur þessara fjármálafyrirtækja. Við vitum að vísu að ríkissjóður er stærsti eigandi Landsbankans en þar með er upp talin okkar vitneskja. Við það er ekki hægt að búa næstu fimm, sex, sjö, átta, níu eða tíu árin að enginn viti hver eigi öll stærstu fjármálafyrirtæki landsins, hver stjórni þeim eða hvernig við ætlum yfir höfuð að sjá íslenskt fjármálakerfi á komandi árum. Fjármálafyrirtækin eru nefnilega gríðarlega mikilvæg í því uppbyggingarstarfi sem þarf að eiga sér stað á Íslandi og ef þau eru ekki heilbrigð náum við aldrei árangri í uppbyggingu viðskiptalífsins.

Við horfum nú fram á það að hér verður stærsti hluti sparisjóðakerfisins ríkisvæddur. Það gengur algjörlega gegn öllum grunnhugmyndum um sparisjóði að þeir séu í eigu eins stórs opinbers aðila. Það er mjög merkilegt að það er ekki með neinum hætti í frumvarpinu reynt að skyggnast fram á veginn og leggja línur að því hvernig menn vilja sjá íslenska sparisjóðakerfið þróast og tryggja að heimamenn á hverjum stað séu það bakbein sem þeir hafa alltaf verið í rekstri sparisjóðanna.

Það er allt við það sama. Ég kallaði þetta fyrir tæpum hálfum mánuði (Forseti hringir.) bútasaum, frú forseti, og ég held því áfram og óska eftir að verða settur (Forseti hringir.) aftur á mælendaskrá.