138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum löggjöf um fjármálafyrirtæki og hún er á margan hátt mjög mikilvæg einmitt núna — einmitt núna er hún mjög mikilvæg — vegna þess að við erum að glíma við afleiðingar hrunsins.

Umræðan hefur verið nokkuð góð og málefnaleg og menn hafa komið víða við, sérstaklega inn á eignarhald bankanna. Ég ætla hérna að stinga upp á ákveðinni hugmynd sem ég vonast til að hv. nefnd skoði á milli 2. og 3. umr., ekki bara í plati heldur af alvöru. Ég held að hún geti verið dálítið snjöll þó að ég segi sjálfur frá.

Í fyrsta lagi hef ég flutt frumvarp um gagnsæ hlutafélög. Það gengur út á að reyna að loka þeim hringjum sem við urðum vitni að fyrir hrun, þar sem eitt hlutafélag keypti í móðurfélagi sínu eða móðurfélagi þess eða móðurfélagi þess. Þetta gátu oft verið mjög langar keðjur. Þannig fóru peningarnir í hring. Keypt var í móðurfélaginu, það keypti svo aftur niður á við og peningarnir gátu farið hring eftir hring eftir hring og þar blandaðist líka inn í lán til starfsmanna og alls konar hlutir. Það var þetta sem ég held að hafi verið ein ástæðan fyrir hruninu sem við lentum í.

Það sem Ísland þarf að gera núna og er mín framtíðarsýn er að byggja upp traust á hlutabréfinu aftur — á hlutabréfinu. Það þarf að byggja upp traust á stofnbréfinu. Það verður ekki gert öðruvísi en að sú regla verði sett að bannað verði að búa til svona hringmyndun á peningum. Það getum við gert og tækifærið liggur fyrir núna í bönkunum af því að þeir eru í eigu kröfuhafa sem við vitum ekki hverjir eru en munu taka til eignar sinnar þegar uppgjöri lýkur. Þá verða þeir eigendur að bönkunum.

Við getum gert kröfu til þess að eigendur banka upplýsi nákvæmlega um eignarhald sitt alveg upp úr ella fái þeir ekki atkvæðisrétt. Það mundi leiða til þess að velflestir erlendu kröfuhafarnir gætu ekki átt banka á Íslandi og notið atkvæðisréttar nema þeir væru einstaklingar því að þessi krafa nær ekki til einstaklinga. Það er nefnilega þannig að einstaklingar geta ekki myndað svona hring af því að þeir bera alltaf ótakmarkaða ábyrgð.

Ef við gerðum þetta þá mundu kröfuhafarnir örugglega mótmæla hástöfum. Þá mundum við sýna þeim fram á það sem ég hef sýnt fram á, að það er veila í hlutabréfaforminu. Það er hægt að búa til svona keðju sem er algjörlega tóm en sýnist hafa mikið eigið fé og vera óháð og þarf ekki að hlýta reglum um uppgjör móður- og dótturfyrirtækis. Það er hægt að búa til svoleiðis keðju. Ég hef sýnt dæmi þess. Útlendingarnir mundu sjá þetta og neyðast til þess að fjalla um galla á hlutabréfaforminu sem á við um allan heim. Þá mundu menn hugsanlega sjá að það er nauðsynlegt að gera eitthvað slíkt fyrir gegnsæi eignarhalds alveg upp úr til þess að geta komið í veg fyrir hringstraumapeninga sem eiga sér líka stað, frú forseti, í útlöndum — ekki síður — og í miklu stærra mæli en var hér á Íslandi.

Ég tel vera möguleika á að neyða útlendingana til þess að sýna eignarhald sitt annars fái þeir ekki atkvæðisrétt. Við gætum líka gert kröfu til þess að í samþykktum allra fyrirtækja sem bankarnir seldu frá sér væru ákvæði um að þeir mættu ekki kaupa í eða lána til forfeðra sinna, sem þá lægju fyrir. Þá lægju fyrir móðurfélag og móðurfélag þess o.s.frv. ef þau ætluðu að hafa atkvæðisrétt.

Þetta gæti leitt til þess að menn byggju til eins konar nýtt form. Öll félögin sem bankarnir eiga og munu selja og verða að selja yrðu með þeim eiginleika að þar lægi allt eignarhaldið fyrir. Ég held, frú forseti, að það mundi byggja aftur upp það traust sem hefur farið svo illa forgörðum eftir hrunið og er eiginlega ekkert nú.