138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem nefndi að heppilegra hefði verið ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri viðstaddur umræðuna og tæki þátt í henni því að mikilvægt er að heyra sjónarmið framkvæmdarvaldsins um þessi mál. Mín upplifun eftir að hafa tekið þátt í umræðunni núna og áður en þinghlé varð er að ekki sé langt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég túlka umræðuna alla vega þannig að sátt ætti að geta náðst um flesta þætti. Að vísu hafa orðið nokkur orðaskipti um breytingartillöguna sem annars vegar ganga út á að það verði að setja ströng tímamörk á hvenær bankarnir verði að selja fyrirtækin og mér heyrist að efnislega sé samhljómur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það en hins vegar hafa stjórnarliðar ekki enn sæst á að fara þá leið að setja skýr tímamörk. Miðað við tillöguna eins og hún hljómar núna er undanþáguákvæðið þannig að komi einhverjar sérstakar aðstæður upp er Fjármálaeftirlitinu falið að samþykkja slíka undanþágu hjá viðkomandi banka.

Ég sannfærist meira um það með hverjum deginum hve mikilvægt er — afskaplega mikilvægt — að bönkum séu settar strangar skorður varðandi eignarhald á fyrirtækjum og ég væri frekar til í að ræða um skemmri tíma en 12 mánuði en að gefa eitthvað eftir hvað það varðar.

Sama á við um eignaraðild að fyrirtækjunum eða bönkum sem núna er í gegnum kröfuhafana, gegnum kröfur sem ýmist hafa verið samþykktar eða bíða samþykkis. Við ættum að vera búin að læra nægjanlega mikið af biturri reynslu af því að hafa ekki heildarmyndina fyrir okkur. Við erum ekki með það gegnsæi sem nauðsynlegt er til að leggja á okkur vinnu til að sjá til þess að við fáum að vita hverjir eiga bankana — vita hverjir eiga bankana.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ekki bara velt upp hugmyndum til bráðabirgða heldur til framtíðar um það hvernig best sé að haga þeim málum. Það er alveg hægt að nota hugmyndirnar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er með um hvernig eigi að rekja hverjir séu raunverulegir eigendur því að oft eru þetta eignarhaldsfélög sem óskýrt er hverjir eiga eða jafnvel ekkert skýrt. Við getum ekki látið þetta tækifæri fram hjá okkur fara.

Núna höfum við tækifæri til að setja þetta í lög hvort sem við samþykkjum lögin núna eða í haust. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að gefa skýr skilaboð. Að vísu finnst mér liggja mjög á að við fáum að vita hverjir eiga bankana en við höfum alveg tök á málinu. Æskilegt væri að það mundi gerast strax.

Síðan eru fjölmörg álitamál sem ég er búinn að fara í gegnum og við munum gera tillögu um ef meiri hlutinn er ekki fáanlegur til þess að skoða þetta á milli þinga eða hvort heldur sem er þá munum við leggja til að sett verði nefnd sem fer yfir álitaefni sem út af standa, sem eru ekki lítil heldur gríðarlega stór, allt frá eignaraðild yfir í samspil milli fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, Fjármálaeftirlitið og ekki síst nokkuð sem við höfum lítið rætt hér, sem er framtíð sparisjóðakerfisins. Það er allt í uppnámi.

Núna fær maður þær fregnir að hægt gangi að ganga frá málum sparisjóðanna þvert á það sem hefur verið lýst yfir. Við þurfum að ræða það. Það væri ekki vitlaust ef hv. formaður viðskiptanefndar mundi bara segja okkur frá því hver staðan á þeim málum er. Ég ætla ekki að rekja söguna en við héldum að þessi mál væru komin í farveg. Það virðist í það minnsta vera eitthvert hökt á því en stóra einstaka málið er að við vitum ekki hvernig við sjáum sparisjóðaumhverfið verða, við vitum að við erum komin með ríkissparisjóði en við vitum ekki hvernig við ætlum að vinna okkur út úr því af því ég ætla þinginu að vilja vinna sig út úr því. (Forseti hringir.) En ef við gerum ekkert þá sitjum við uppi með ríkissparisjóði sem erfitt er að sjá hvaða hlutverki er ætlað að gegna.