fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Ég ítreka óánægju mína með það að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Ég skil ekki hvernig hægt er að ætlast til þess að aðalumræða um jafnmikilvægt frumvarp og breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki er, að þingmenn ræði það hér af einhverri skynsemi þegar hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið að kíkja inn í þingsal og sýna það og sanna að hann er á lífi.
Það sem ég ætla að gera að umtalsefni núna er eignarhald fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum. Það er alveg ljóst að það ríkir gríðarleg tortryggni meðal íslenskra atvinnurekenda, meðal þeirra sem eiga og reka fyrirtæki sem enn eru í eigu annarra en fjármálafyrirtækja. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að tryggja að þessi tortryggni heyri sögunni til, að hér verði aftur trúnaður og traust í samskiptum manna? Það er ekki hægt nema það sé gert með skýrum lagareglum um með hvaða hætti bönkum og fjármálafyrirtækjum er heimilt að eiga fyrirtæki, hvaða tímalengd er á því eignarhaldi o.s.frv. Það verður að setja inn í þessi lög tímamörk sem eru skemmri frekar en lengri, a.m.k. innan við eitt ár, og það verður að taka af öll tvímæli og hafa skýr lagaleg ákvæði um það hvernig bankar og fjármálafyrirtæki geta stýrt viðkomandi fyrirtækjum, hvernig viðkomandi fyrirtæki verður stýrt án þess að það bitni á samkeppnisaðilum, eins og félagi minn hv. þm. Einar K. Guðfinnsson raki hér dæmi um.
Þetta verður ekki eina dæmið sem við munum heyra, við munum heyra um að lítil og meðalstór fyrirtæki sem staðið hafa í samkeppnisrekstri verði flæmd út af markaði af fyrirtækjum og fyrirtækjasamsteypum sem starfa núna í skjóli ríkisrekinna banka. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn ætli að láta þetta ástand viðgangast, það getur bara ekki verið. Það getur heldur ekki verið að hæstv. ríkisstjórn og liðsmenn hennar hér í þingsalnum telji að það sé eðlilegt að fyrirtækjasamsteypur, sem eðli málsins samkvæmt ætti frekar að brjóta upp, nýti sér aðstöðu sína. Við hefðum átt að nota tækifærið til þess að brjóta upp þær fyrirtækjasamsteypur sem hér hafa haslað sér völl oft, tíðum í skjóli óeðlilegra viðskiptahátta eða óeðlilegra sambanda. Nei, þau tækifæri eru ekki nýtt heldur ætlar hæstv. ríkisstjórn þvert á móti að tryggja að þessar fyrirtækjasamsteypur geti haldið áfram dag eftir dag og brotið niður samkeppni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Ég spyr: Hvernig ætla menn að taka á slíkum vanda? Það er ekki gert í þessu frumvarpi en þetta er þó líklega eitt af stóru málunum, að tryggja hér eðlilegt viðskiptaumhverfi um leið og við byggjum hér upp að nýju eðlilegt og heilbrigt fjármálakerfi. Þetta er bara eitt af mörgum málum sem frumvarpið tekur ekki á. Það þýðir ekki að gera eins og meiri hluti viðskiptanefndar og skauta fram hjá þessu með mjög léttvægum hætti í nefndaráliti sínu. Það gengur ekki.