fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar að bregðast við nokkrum þáttum bæði í þessari ræðu og ekki síður í fyrri ræðu hans hér í dag.
Víkjum fyrst að síðari ræðu hans þar sem hann kallar eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í því efni að brjóta upp þær fyrirtækjasamstæður sem bankarnir eru nú komnir með hendurnar í. Ég vil vekja athygli þingmannsins á því að í viðskiptanefnd er nú verið að ræða frumvarp um samkeppnismál en þar er Samkeppniseftirlitinu gefin heimild til þess að brjóta upp fyrirtækjasamsteypur og fjallar viðskiptanefnd nokkuð ítarlega um þetta mál. Þar eru skiptar skoðanir, sumir nefndarmanna vilja ganga ansi langt, aðrir skemur, og skora ég á hv. þingmann að viðra skoðanir sínar og þau sjónarmið sem heyrast úti í samfélaginu við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Til dæmis hafa ýmsir hagsmunaaðilar í atvinnulífinu, svo sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, gert fjölmargar athugasemdir við þann möguleika að Samkeppniseftirlitið fái að brjóta upp samstæður. Það er eitt mál.
Annað mál er um málefni sparisjóðanna sem hv. þingmaður vék að í fyrri ræðu sinni hér í dag og átaldi ríkisstjórnina fyrir að ríkisvæða sparisjóðakerfið. Ég vil ekki ganga eins langt og hv. þingmaður vegna þess að ég lít svo á að ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið hafi verið með aðgerðum sínum á síðustu 12, 14, 18 mánuðum að stuðla að því að bjarga sparisjóðakerfinu, ef svo mætti að orði komast. Við tókum þó nokkuð skemmtilega umræðu um þessi mál öll á síðasta sumarþingi og ræddum þau ítarlega og ég ætla að koma betur að þessu álitaefni í seinna andsvari mínu.