138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég varð var við að hv. þingmenn Magnús Orri Schram og Óli Björn Kárason töluðu um sparisjóðina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við vekjum athygli á því að þar erum við bara að ýta vandanum á undan okkur. Það er nákvæmlega það sem gagnrýnt var hjá rannsóknarnefndinni að menn hafi gert, að menn hafi ekki horfst í augu við stöðuna eins og hún var og ekki tekið á vandanum. Það er nákvæmlega það sama og við erum að gera hér, klippt og skorið, það er alveg á hreinu að það er sú staða sem er uppi varðandi sparisjóðina í landinu. Hv. þm. Magnús Orri Schram segir að lausnin sé í frumvarpinu vegna þess að þar sé verið að minnka kröfurnar til sparisjóðanna um eigið fé og á móti komi að Fjármálaeftirlitið eigi að afmarka markaði fyrir viðkomandi sparisjóði og þeir eigi að starfa á afmörkuðum staðbundnum mörkuðum.

Virðulegi forseti. Hvað þýðir þetta þegar kemur að fjármálastarfsemi — það væri kannski ágætt ef einhver stjórnarliðanna útskýrði það — staðbundinn afmarkaður markaður fyrir fjármálastofnun alveg sama hvar það er? (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er Seltjarnarnes slíkur markaður eða Grafarvogurinn? Og hvað ef við erum með afmarkaðan markað, t.d. Seltjarnarnes, og einhver af nágrönnum mínum í Grafarvoginum vill eiga viðskipti við viðkomandi sparisjóð, eigum við að banna það? Nú er það þannig að ef fjármálastofnun fer á netið, sem flestar fjármálstofnanirnar gera, getur maður átt viðskipti hvar sem er í heiminum. (Gripið fram í: Ég hef prófað það.) Hér setja menn þetta bara inn og segja Fjármálaeftirlitinu að laga þetta, redda þessu einhvern veginn, án þess að nokkuð sé búið að hugsa hvernig eigi að gera þetta.

Þetta er auðvitað stórmál vegna þess að við erum að minnka kröfur til ákveðinna fjármálastofnana varðandi eigið fé. Hvað þýðir það? Af hverju eru gerðar slíkar kröfur um eigið fé hjá fjármálastofnunum og af hverju eru þær háar? Það er hugsað sem neytendavernd — þegar ég fer í bankann minn, bara eins og allir aðrir, þekki ég eðli máls samkvæmt ekki þann rekstur út í hörgul — og þess vegna er verið að setja allar þessar reglur og hvort sem okkur líkar betur eða verr er svona óbeint ríkisábyrgð á fjármálastofnunum en ekki síður er þetta neytendavernd, þannig að við getum verið nokkuð viss um að það séu traustar stoðir undir viðkomandi fjármálastofnun. Þess vegna er gerð krafa um mikið eigið fé.

Varðandi sparisjóðina þá er þar fimm sinnum minna eigið fé en til þess að hafa ekki áhyggjur af því á að vera staðbundinn afmarkaður markaður fyrir sparisjóðina. Síðan ætla menn bara að klára þetta hér og það er ekki nokkur maður búinn að hugsa þetta. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á hvernig menn geta skipt fjármálastofnun á Íslandi niður á staðbundinn afmarkaðan markað nema með einhverjum mjög sérkennilegum æfingum. Ég veit það ekki, kannski í Grímsey. Ef við getum haft sparisjóðinn þar og bannað honum að vera á internetinu væri kannski hægt að tryggja það þokkalega að ekki væri hægt að eiga nein viðskipti við hann nema með því að búa í Grímsey. Þetta getur hljómað sem gamansaga en þetta er samt þannig. Það eru ekki mjög margir aðrir staðir á landinu sem eru þess eðlis að hægt sé að loka þá alveg af fyrir bankaviðskiptum. Þetta er bara einn þátturinn af mörgum sem við höfum rætt en er kannski afskaplega myndrænn og maður áttar sig þá á því hvað við eigum mikið eftir þegar á að fara að ganga frá málinu sem lögum frá Alþingi og segja FME að gera eitthvað sem er ekki hægt að gera. Það er ekki hægt að búa til staðbundinn afmarkaðan markað fyrir fjármálastofnun jafnvel þó að hún heiti sparisjóður.

Síðan erum við auðvitað í þeirri stöðu að vera komin með ríkissparisjóði og við vitum alveg af hverju það er til komið. En hvað er ríkisrekinn sparisjóður? Hvað er það? Við erum ekki búin að svara því og við erum ekki með neina framtíðarsýn ef það er viljinn að koma þessu til stofnfjáreigenda. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem hér eru uppi og sýna svart á hvítu að þetta mál er ekki fullbúið. Því fer víðs fjarri.