fjármálafyrirtæki.
Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú ekkert sérstaklega að blanda mér frekar í þessa umræðu núna við 2. umr., er búin að halda ræðu fyrr í umræðunni, en líkt og hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni urðu orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams til þess að ég fann mig knúna til að koma hingað upp og ræða aðeins um til að mynda sparisjóðina.
Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði: Jú, jú, vissulega get ég tekið undir það að framtíðarstefnumótunar sé þörf, en við getum bara ekki farið í hana vegna þess að við erum í miðjum björgunaraðgerðum og það eru flóknar samningaviðræður í gangi.
Nú verð ég að viðurkenna að ég er talsvert áttavillt eftir þessi ummæli. Eins og þingmaðurinn benti á ræddum við málið hér mjög ítarlega í fyrrasumar. Ég get kannski ekki tekið undir það með hv. þingmanni að umræðan hafi verið sérstaklega skemmtileg, hún var þvert á móti ekki gagnleg að því leytinu til að okkur fannst ekki á okkur hlustað. Allar þær ábendingar sem við höfðum uppi í umræðum um sparisjóðakerfið í fyrra voru hunsaðar í stórum og smáum atriðum. Við bentum á nákvæmlega það sem við erum að benda á í þessu samhengi, skort á framtíðarsýn, og þá kemur hv. þm. Magnús Orri Schram og segir: Jú, jú, það er alveg rétt, framtíðarstefnumótunar er þörf.
Mér finnst þetta algjörlega með ólíkindum. Við þessa umræðu hér hefur það kristallast eina ferðina enn hversu mikill bútasaumur og lélegur bragur er á frumvarpinu. Það er ekki tekið heildstætt á málum og rökin eru að þau séu á fullu í björgunaraðgerðum og flóknar samningaviðræður séu í gangi.
Hvenær á að fara í framtíðina? Þegar við erum búin í björgunaraðgerðunum? En af hverju getum við ekki gert þetta samhliða? Hvað er fengið með því að fara í einhverjar svokallaðar björgunaraðgerðir? Ég bendi á að það eru 18 mánuðir síðan hrunið varð. Það var brugðist við ýmsum atriðum með miklum hraða strax og ýmsir hlutir gerðir sem þurfti að gera í þannig ástandi að ekki var hægt að sjá allt fyrir, en við erum ekki í slíku ástandi núna. Við erum búin að sanna það með því að fyrir ári fengum við ákúrur, við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fyrir að tefja sparisjóðafrumvarpið vegna þess að það var ekki hægt að komast í framtíðina fyrr en búið væri að klára það mál. Það er komið næstum því eitt ár og enn getum við ekki farið í mjög svo þarfa framtíðarstefnumótun — vegna þess að við erum í björgunaraðgerðum.
Þessi hæstv. ríkisstjórn gerir allt í vitlausri röð, allt. Það er byrjað á vitlausum enda og farið í hluti sem skipta akkúrat engu máli. Þó að ýmislegt sé til bóta, ég ætla ekki að draga úr því, er hreint með ólíkindum að ekki skuli vera tekið tillit til þeirra fjölmörgu ábendinga sem við höfum bent á, sem rannsóknarskýrslan bendir á, atriði sem er unnið að úti í heimi.
Það er annað með ólíkindum hér. Þegar við vorum fyrr í þessari umræðu kallaði formaður Sjálfstæðisflokksins þetta frumvarp svar ríkisstjórnarinnar við bankahruninu. Þetta er það sem ríkisstjórnin ber á borð fyrir okkur, væntanlega þá til þess að koma í veg fyrir að þessi ósköp gerist aftur. Ég mundi halda að það væri markmiðið. Nei, framtíðarstefnumörkunar er vissulega þörf, það er bara ekki komið að henni.
Hæstv. forseti. Ég held að það verði engin framtíð í landinu ef við getum ekki byrjað að gera þessa hluti rétt. Einu sinni skulum við byrja á því að gera þessa hluti rétt. Horfum á þetta heildstætt. Ég legg til, sem ég gerði í fyrri ræðu minni hér, að þetta frumvarp verði lagt til hliðar núna, sumarið tekið í að vinna þetta almennilega, taka þá hluti sem við erum að tala um hér en einnig þau fjölmörgu atriði sem er ábótavant og við höfum bent á.
Ég tek undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni, það er hreint með ólíkindum það virðingarleysi sem hinn ópólitíski ráðherra efnahagsmála sýnir Alþingi Íslendinga og þeim málaflokki sem hann ber ábyrgð á, að láta ekki svo lítið að koma hingað og sitja yfir umræðunni þegar við ræðum svar ríkisstjórnarinnar við bankahruninu. Það er algjörlega með ólíkindum.
Ég tek líka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni þegar hann segir að þetta frumvarp sé sett fram í einhvers konar friðþægingarskyni. Þau vilja vel, ég efast ekkert um það, næst þegar hæstv. forsætisráðherra heldur ræðu verður sagt: Víst er þessi ríkisstjórn að gera fullt af hlutum. Við erum að bregðast hér við hægri og vinstri. Við erum búin að breyta lögum um fjármálafyrirtæki til að koma í veg fyrir að þessi atburður geti gerst aftur.
En nú horfi ég á hv. formann viðskiptanefndar og leyfi mér að fullyrða að þegar hæstv. forsætisráðherra segir þetta verður talað um það sem nöldur af okkar hálfu að draga slíkar fullyrðingar í efa. Ég ætla þá bara að segja það hér hátt og snjallt áður en þessi löggjöf verður samþykkt að þetta frumvarp og þessi breyting mun ekki gera neitt til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir sem gerðust hér endurtaki sig vegna þess að það er ekki verið að taka á þeim málum sem ég held að við öll séum sammála um að urðu til þess að svo fór sem fór. Mér finnst hreint með ólíkindum að þetta verklag sé viðhaft.
Hv. þm. Pétur H. Blöndal er búinn að tala sig hásan í þessu máli og öðrum málum og búinn að leggja fram frumvarp sem tekur á ýmsum þessum atriðum. Þetta hefur ekkert verið skoðað í tengslum við þetta mál. Ég þekki það af veru minni í nefndinni.
Nú fer þetta mál aftur inn milli 2. og 3. umr. en vegna þess að það er stutt til þingloka er ég hrædd um að ekki verði hlustað á þau atriði sem við bendum á. Nákvæmlega eins og gerðist með sparisjóðina í fyrrasumar verða þau afgreidd til málamynda, það verður ekkert gert með þetta. Mikil er ábyrgð þeirra sem klára vinnuna svona vegna þess að við vitum nákvæmlega hvað gerist þá, það bara gerist akkúrat ekki neitt. Það mun ekkert gerast hér í framtíðinni til hagsbóta fyrir íslenskt bankakerfi og íslenskt efnahagslíf ef þessi handarbakavinnubrögð verða viðhöfð. Þetta er mjög sorglegt.
Aðeins til að klára þetta á því sem ég byrjaði, sparisjóðunum. Rétt eins og við höfum rætt er ekkert til sem heitir ríkissparisjóður. Sú hugsun er ekki til. Það sem er verið að gera núna er að kerfið er tekið mjög handahófskennt vegna þess að það var ekki horft á það heildstætt þegar tækifæri var til. Eins og við höfum tækifæri núna til að hugsa um fjármálafyrirtækin heildstætt er ekkert verið að byggja upp sparisjóðakerfið heildstætt. Ég veit ekki um hvaða flóknu samningaviðræður hv. þm. Magnús Orri Schram var að tala. Eftir hverju er verið að bíða? Framtíðarsýnin átti að geta hafist strax og lögin voru samþykkt í fyrra. Síðan eru liðnir margir mánuðir, tæpt ár. Hverjir eru í samningaviðræðum við hvern? Það væri ágætt að fá það upplýst.
Nei, frú forseti, það er verið að setja upp ríkisrekna landsbyggðarbanka á afmörkuðum markaðssvæðum eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur bent á og ég óttast að þeirri tengingu sem sparisjóðirnir höfðu inn í sín samfélög verði ekki komið við í þessu nýja kerfi. Þykir mér það mjög miður.
Ég ítreka það sem ég sagði, þetta frumvarp er ekki tilbúið. Þetta mál er ekki tilbúið, það þarf að vinna það í sumar og gera það almennilega.