fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Ef ég hef vænt hv. þingmann um að vera ómálefnalegan bið ég hann forláts á því, ég held að ég hafi ekki gert það. Ég lýsti mig einfaldlega ósammála honum. Það getur verið að það slái þingmanninn sem svo að ég sé ómálefnaleg og þá verður það bara svo að vera.
Við í nefndinni fylgdumst vel með þegar samningaviðræðurnar voru í gangi um Sparisjóðinn í Keflavík, Byr og e.t.v. einhverja fleiri sem ég man ekki akkúrat í augnablikinu. En lauk þeim viðræðum ekki með yfirtöku ríkisins á Sparisjóðnum í Keflavík og Byr? Þær flóknu samningaviðræður sem hv. þingmaður er að vísa til hljóta þá að vera um minni sparisjóðina.
Þá kem ég að því að ef verið er að tala um einhverja framtíðarstefnumótun um sparisjóðina án aðkomu Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs erum við ekki að tala um sparisjóðakerfi eins og við þekktum það. Þeir eru, eða voru, langstærstu sparisjóðirnir, voru burðarásarnir í sparisjóðakerfinu. Það hefur margoft komið fram á fundum nefndarinnar að án þessara tveggja sparisjóða er kerfið svo lítið og vanmáttugt. Hvað erum við þá að tala um? Þá erum við að tala um, eins og ég sagði í ræðu minni, eitthvert landsbyggðarbankakerfi með minni eiginfjárkröfur á afmörkuðum landsvæðum og allt þetta sem við höfum talað um hér — en tölum þá bara um það þannig. Við erum ekkert að tala um sparisjóðina eins og við þekkjum sparisjóðakerfið.
Það vakti líka athygli að þegar Byr og Sparisjóðurinn í Keflavík voru yfirteknir voru tvær ólíkar leiðir farnar. Það mátti skilja að Sparisjóðurinn í Keflavík ætti að verða hryggjarstykkið í nýja sparisjóðakerfinu en (Forseti hringir.) eins og með allt annað vitum við það ekkert, það er ekki búið að láta okkur vita af því.