fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir er kannski dálítið brennd af forsögunni því að það hefur löngum verið þannig að stjórnarandstaðan hefur ekki átt upp á pallborðið hjá stjórnarflokkunum og fá þingmannafrumvörp hafa verið samþykkt eða hugmyndir þingmanna. Ég er að vonast til þess, frú forseti, að þetta sé að breytast og ég held að við ættum ekki að búast við hinu versta fyrir fram. Kosningin um síðustu helgi sagði mér að allir stjórnmálamenn í landinu þurfa að breyta viðhorfi sínu og vinnubrögðum og þar á meðal þessu.
Mér finnst þessi umræða hafa verið málefnaleg og ég bind vonir við að hv. formaður nefndarinnar, Lilja Mósesdóttir, hafi hlustað á umræðuna og taki upp þær skynsamlegu ábendingar sem komið hafa fram. Ég ætla því að biðja hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur að halda í vonina, því að vonin er það sem gefur okkur framtíðina, og búast við því besta af stjórnarliðum, að þeir taki upp þær skynsamlegu ábendingar sem komið hafa fram.
Það var þess vegna sem ég fór í andsvar við hv. þingmann. Ég hafði dálítið á móti því vonleysi sem kom fram í ræðu hennar.