138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við sjáum fram á lokin á þessari umræðu. Ef við tökum það aðeins saman hvernig hún hefur verið þá hefur mér fundist hún mjög gagnleg. Mér hefur fundist mjög gott að fá fram sjónarmið þingmanna sem ekki eru í viðskiptanefnd og koma svolítið öðruvísi að málinu en við sem erum búin að sitja yfir þessu lengi. Ég var alveg sannfærður um það þegar við fórum með þetta mál inn í þingið að það var ekki tilbúið en ég er enn sannfærðari eftir þessa umræðu. Það sem mér þykir miður — og þetta er uppbyggileg gagnrýni fyrir meiri hlutann því að margt hefur verið mjög vel gert hvað þessa vinnu snertir. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá, og ég vil þakka það, að hv. þm. Magnús Orri Schram hefur tekið þátt í umræðunni í mörgum andsvörum en enginn annar, held ég, ef hv. þm. Lilja Mósesdóttir er undan skilin, hefur tekið þátt í umræðunni í dag.

Það læðist að manni sá grunur að svipuð staða sé uppi eins og oft er, og er það ljóður á ráði okkar þingmanna og enginn stjórnmálaflokkur saklaus hvað það varðar, að verið sé að bíða eftir að þessi umræða klárist. Menn eru ekki að svara fyrir eða ræða um þau mál sem hér koma upp. Ég ætla ekki að taka upp þau fjölmörgu álitaefni sem komið hafa fram eða spurningar sem ekki hefur verið svarað.

Ég spurði áðan um sparisjóðina, hvað er staðbundinn afmarkaður markaður? Ég fékk ekkert svar við því. Það er búið að velta upp ýmsum málum varðandi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og ýmislegt annað, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann — grundvallaratriði sem menn hafa verið að ræða, ég ætla ekki að tilgreina það allt núna. Ef ekkert breytist á næstu mínútum, virðulegi forseti, munum við klára þessa umræðu án þess að fá nein svör við því, engin svör við þeim athugasemdum sem hér hafa komið fram.

Ég vek athygli á því að frumvarpið er ekki samið á grundvelli rannsóknarskýrslunnar sem er að stærstum hluta um fjármálakerfið og það sem gerðist hér. En ekki er öll nótt úti enn eins og hv. þm. Pétur Blöndal vísaði í. Sá möguleiki er fyrir hendi að við förum efnislega yfir alla þá hluti sem komið hafa upp, sem eru fjölmargir, í nefndinni. Sá möguleiki er alveg til staðar. En það er alveg ljóst að við klárum það þá ekki á einum eða tveimur fundum, það liggur alveg fyrir. Við erum alltaf að tala um breytt vinnubrögð, virðulegi forseti, og fram kom flokkur sem gerði grín að frösunum í íslenskum stjórnmálum og fékk sex menn kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur. Hér kom líka hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem hélt sína síðustu ræðu í það minnsta í einhvern tíma, og talaði sérstaklega um að við ættum að breyta vinnulagi. Þegar við lesum rannsóknarskýrsluna er augljóst að skynsamlegast væri fyrir okkur að breyta vinnulaginu.

Það liggur hreint og klárt fyrir að menn hafa verið — og ég held ég orði það ekkert öðruvísi en það er þó að ég sé mikið til að tala um hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins — mjög málefnalegir í gagnrýni sinni. Ég held að ekki sé hægt að kvarta undan því að menn hafi komið fram með skæting og útúrsnúning, þvert á móti. Menn hafa komið fram með mál sem þeir hafa í fullri einlægni mjög miklar áhyggjur af. Eignarhald bankanna er t.d. augljóst dæmi um það. Nú er það undir okkur komið, og svo sannarlega mun meiri hlutinn stýra því, hvert framhaldið verður. Förum yfir það og reynum að svara þeim álitaefnum sem komið hafa upp í umræðunni? Eða munu menn reyna að keyra þetta í gegn í mikilli andstöðu út frá einhverjum öðrum forsendum?

Ég vil einhvern veginn trúa því að m.a. kosningaúrslitin um helgina og ýmislegt annað geri það að verkum að við séum öll að hugsa um pólitíkina almennt og hvað megi betur fara. Ég el þá von í brjósti að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni, sem oft hefur staðið sig mjög vel og komið til móts við minni hlutann, muni skoða þessi mál af fullri alvöru og taka þann tíma sem þarf í nefndastarfið.