138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp í andsvar til að færa það til bókar hver mín skoðun er á þeim álitaefnum sem hv. þingmaður reifaði. Það kom mér vissulega á óvart þegar umræðan í þingsalnum varð svona löng við 2. umr. vegna þess að málið var ekki tekið út í mikilli andstöðu í nefndinni. Ég hélt að við hefðum tæmt umræðuna þó nokkuð mikið þar. Það er í anda þeirra vinnubragða sem við erum að reyna að ástunda í viðskiptanefnd að ræða málin ítarlega á þeim vettvangi og kanna hug allra til hinna ýmsu álitaefna.

Ég hef lýst því hér í dag að við munum á milli 2. og 3. umr. taka sérstaklega til skoðunar þá hugmynd að þrengja það tímabil sem bankar geta haft eignarhald á öðrum fyrirtækjum og ég legg til að við skoðum það í nefndinni. Hér hefur verið kallað eftir hinum ýmsu atriðum og menn spurt um dreifða eignaraðild, aðskilnað á milli fjárfestingarbanka og einkabanka, sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, Kauphöll, endurskoðendur o.fl. Ég tel mjög nauðsynlegt að ræða þessa hluti hvort sem það er beint í lagafrumvörpum um einstök álitaefni eða sem hluta af framtíðarstefnumótun um fjármálamarkað og fjármálastarfsemi á Íslandi.

Ég vil hins vegar ítreka það hér og nú, hæstv. forseti, að ég tel ekki að við eigum að fresta afgreiðslu frumvarpsins því að í því er tekið á fjölmörgum mikilvægum málum sem við þurfum að klára. Ég tel því rétt að ganga frá þessum málum á þessu vorþingi en ekki fresta því til haustsins. Eins og áður hefur verið rakið, og ég gerði ítarlega í ræðu minni fyrr, eru þarna á ferð fjölmörg mikilvæg málefni sem þarf að klára og ganga frá.