138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir andsvarið, mér fannst hv. þingmaður tala skýrt. Ég met það þannig, trúi því og treysti, að hann eins og aðrir í meiri hluta nefndarinnar hafi vilja til að fara yfir þá hluti sem hér er verið að velta upp. Ég vil trúa því og ég held að það sé þannig.

Oft og tíðum hefur verið mikill hávaði í nefndinni en það var enginn sérstakur hávaði þegar þetta mál var tekið út, enda er leiðinlegt ef við þurfum alltaf að vera með slíkt. Það kom hins vegar skýrt fram að við greiddum því ekki atkvæði og höfum oftar en ekki lýst skoðunum okkar. En ég skal viðurkenna að það er líka ýmislegt í umræðunni hér sem ég er ekki viss um að við höfum rætt alveg nógu vel, sem hefur komið frá öðrum þingmönnum. Ég skal gangast við því, og þið hafið það bara fyrir ykkur, að ég hef ekki náð fullkomnun í að vera til. Oft geri ég mistök og stundum sé ég ekki hluti sem aðrir sjá. Þess vegna finnst mér gott að taka þátt í umræðu og hlusta á annað fólk og það er það sem gerðist núna. Mér finnst ekki rétt hjá hv. þingmanni að gefa sér það sem algera forsendu að klára málið.

Auðvitað þurfum við að klára þessi mál og önnur en stóra málið er að við séum viss um að við séum að gera rétt og að við séum að leysa það viðfangsefni sem er til staðar. Ég hef vissu fyrir að við erum ekki að því og fjölmörg dæmi eru um það á þinginu að menn hafi ætlað að taka eitthvað upp seinna en þá hafa liðið mörg ár, jafnvel áratugir, áður en menn hafa gert það og þá erum við í mikilli hættu.