fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. varaformanni viðskiptanefndar þegar hann lýsir undrun sinni á því hversu löng þessi umræða hefur verið um frumvarp um fjármálafyrirtæki, þar sem nefndin notaði tímann frá því í febrúar, eða fjóra mánuði, til að vinna að ýmsum breytingartillögum við þetta frumvarp sem eru mjög til bóta. Meiri hlutinn reyndi eftir bestu getu að koma til móts við þá gagnrýni sem kom fram í nefndinni en ég vil sérstaklega þakka nefndarmönnum stjórnarandstöðunnar í viðskiptanefnd fyrir gagnlegar ábendingar og góðar umræður og geta þess að t.d. breytingartillaga við 13. gr. er komin frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd. Þar er gerð krafa um að fjármálafyrirtæki sem hafa yfirtekið félög sendi inn upplýsingar um rekstur þessara yfirteknu fyrirtækja á sex mánaða fresti. Auk þess komu fram tillögur frá fulltrúa Framsóknarflokksins varðandi þær skyldur sem ætti að setja á hendur endurskoðendum og þær voru teknar upp. Fulltrúi Hreyfingarinnar vildi að sérstaklega yrði í nefndarálitinu fjallað um þjónustufulltrúa sem jafnframt sinntu sölustörfum og þar er skýrt tekið fram að þessir þjónustufulltrúar eigi að vera á einhvern hátt auðkenndir, eða viðskiptavinum eigi að vera ljóst að þeir stundi ekki bara þjónustu heldur jafnframt sölumennsku.
Einn hv. þingmaður talaði um að þetta frumvarp væri eins og lítil mús. Ég get ekki tekið undir þá gagnrýni í ljósi þess að það tók viðskiptanefnd fjóra mánuði að koma með breytingartillögur við frumvarpið sem ég tel að séu allar til bóta. Ég er þó sammála þeirri gagnrýni sem hefur komið fram að frumvarpið er eitt af mörgum skrefum sem þarf að taka til að við búum við gott framtíðarskipulag á fjármálakerfinu.
Ég hef hugsað mér að nota þennan ræðutíma til að fara yfir helstu gagnrýnispunktana sem komu fram í dag og jafnframt fyrir þinghlé. Um það bil sjö þættir hafa hvað mest verið ræddir. Í dag kom hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson með þá gagnrýni að það vantaði skilgreiningu á staðbundnum mörkuðum sparisjóða inn í frumvarpið. Ég vil í því sambandi geta þess að staðbundinn markaður á fyrst og fremst við starfsemina sjálfa en ekki viðskiptavinina. Viðskiptavinirnir geta verið staðsettir hvar sem er og átt netviðskipti við viðkomandi sparisjóð sem hefur þá bara útibú á ákveðnu svæði. Síðan er það Samkeppniseftirlitið sem hefur þekkingu á því hvað er staðbundinn markaður og Fjármálaeftirlitið mun nýta sér þá þekkingu þegar það metur skilgreiningu sparisjóðs á þessum staðbundna markaði. Gott dæmi um sparisjóð sem veitir staðbundna þjónustu er Sparisjóður Strandamanna. Margir viðskiptavinir hans eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en sparisjóðurinn sjálfur er ekki með útibú hér og hefur því þurft að grípa til þess ráðs að keyra greiðslukort heim til fólks. Við megum heldur ekki gleyma því að sparisjóðirnir eiga fyrst og fremst að standa í innlánsviðskiptum og veita viðskiptavinum sínum greiðslukortaþjónustu.
Einnig var gagnrýnt að ekkert í þessu frumvarpi kveði á um að eignarhald fjármálafyrirtækja eigi að vera dreift. Ég hef reyndar aðeins reifað þessa gagnrýni í andmælum mínum fyrr í dag og bent á að í rauninni hafi eignarhald á fjármálafyrirtækjum aldrei verið jafn dreift og í dag þar sem fjölmörgum, jafnvel þúsundum krafna hefur verið lýst í þrotabúin er standa á bak við eignarhaldsfélögin sem velja fulltrúa í stjórnir nýju bankana. Ég gat hvergi í lögum annarra þjóða á EES-svæðinu fundið ákvæði um að eignarhald fjármálafyrirtækja ætti að vera dreift. Það var ákvæði um það í norskum lögum en ekki er lengur hægt að finna það, hvort sem það er vegna þess að ákvæðið stangaðist á við evrópska löggjöf eða ekki. Það er ekki vitað. Fólk hefur val því ef það vill skipta við fjármálastofnun sem er með dreift eignarhald þá getur það skipt við sparisjóði, eins og ég hef bent á áður. Við í meiri hlutanum ásamt fulltrúa Hreyfingarinnar leggjum til í breytingartillögu að slitastjórn verði heimilt að afhenda kröfuskrá þannig að viðskiptavinir geti fengið upplýsingar um alla þá sem eiga óbeint í nýju bönkunum. Það er gert til að koma til móts við þá gagnrýni að ekki sé vitað hverjir eigendur nýju bankanna eru.
Önnur gagnrýni sem kom oft fram í umræðunni um frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra er að í það vanti pólitíska stefnumótun varðandi framtíðarskipan fjármálamarkaðsins. Í því sambandi vil ég ítreka skoðun allra nefndarmanna viðskiptanefndar, nema fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en í nefndaráliti með vátryggingastarfsemi leggja þeir áherslu á nauðsyn þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem móti stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum þingnefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja eftir fall bankanna. Ég hef sjálf komið þeim skilaboðum á framfæri við ráðuneytið að ég vilji að skoðað verði hvort ekki sé hægt að banna fjármálastofnunum að versla með eigin hluti og það væri þá liður í því að aðskilja betur fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Öldungadeildarþing Bandaríkjaþings samþykkti slíkt ákvæði fyrir nokkrum vikum. Það ákvæði er reyndar ekki komið út úr þinginu en ég vildi gjarnan að efnahags- og viðskiptaráðuneytið skoðaði það þegar það er orðið að lögum. Ég vonast til að þessi nefnd sem lagt er til í nefndaráliti viðskiptanefndar með frumvarpi um vátryggingastarfsemi að verði skipuð komi með frekari tillögur um aðskilnað fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi og jafnframt að hún komi með framtíðarsýn á sparisjóðakerfið.
Það hefur verið gagnrýnt að fjármálastofnanir hafi samkvæmt þessu frumvarpi ekki málskotsrétt þegar kemur að ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Þess má geta að árið 2006 var kærunefnd, sem bankarnir gátu skotið ákvörðunum FME til, lögð af og ástæðan var m.a. sú að Fjármálaeftirlitið tapaði flestum málum sem fóru þangað inn. Ég get upplýst að efnahags- og viðskiptaráðuneytið er að skoða ásamt Samtökum fjármálafyrirtækja hvort það sé æskilegt að koma upp einhvers konar gerðardómi til að leysa úr ágreiningi sem kann að rísa vegna ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Síðan má ekki heldur gleyma því að ef fjármálafyrirtæki eru óánægð með úrskurði Fjármálaeftirlitsins geta þau alltaf leitað til dómstóla og fengið niðurstöðu þeirra varðandi ágreiningsefnin.
Í umræðunni kom fram að frumvarpið væri ekki að öllu leyti í samræmi við tillögur Kaarlos Jännäris. Því var haldið fram að skuldaskrá sem frumvarpið mælir fyrir um að verði sett upp hjá Fjármálaeftirlitinu sé ekki í samræmi við tillögur Jännäris en ef tillögur hans eru skoðaðar á bls. 38 og 39 er þar að finna tillögu nr. 4 þar sem stendur, með leyfi forseta:
„Koma ber upp útlánaskrá hjá Fjármálaeftirlitinu til að draga úr útlánaáhættu í fjármálakerfinu og til að betri yfirsýn fáist yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu.“
Það er alveg skýrt að frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er í samræmi við tillögur Kaarlos Jännäris. Vegna þess að hér er talað um að þetta frumvarp gangi mjög stutt og ríkisstjórnin geri lítið til að endurreisa efnahagslífið langar mig til að fara yfir þessar tillögur sem Kaarlo Jännäri setti fram í skýrslu sinni.
Fyrsta tillaga hans er að fækka ráðuneytum sem sinna fjármálamarkaðnum. Hæstv. forsætisráðherra hefur tilkynnt að í burðarliðnum sé frumvarp um fækkun ráðuneyta þannig að við munum sjá tillögur sem koma til móts við þessa tillögu Jännäris. Síðan er talað um að sameina eigi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Ég get upplýst í því sambandi að efnahags- og viðskiptaráðuneytið er að undirbúa að setja saman nefnd til að skoða kosti og galla við slíka sameiningu. Ef nefndin kemst að því að æskilegt sé að sameina þessar tvær stofnanir má búast við að frumvarp um það verði lagt fram næsta vetur.
Kaarlo Jännäri leggur til að settar verði strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda og að þeim verði framfylgt af krafti, en á öllum þessum atriðum er tekið í frumvarpinu. Síðan leggur hann til að vettvangskönnunum hjá eftirlitsaðilum verði fjölgað og það er einmitt gert í frumvarpinu. Einnig vill hann að innstæðutryggingarkerfið verði endurskoðað og þá ekki síst í nánu samhengi við þróun mála á þessu sviði innan ESB en viðskiptanefnd er einmitt með frumvarp um breytingar á innstæðutryggingarkerfinu. Að lokum leggur Kaarlo Jännäri til að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggjafar og eftirlits með fjármálastarfsemi, ekki síst innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Það hefur verið gagnrýnt að frumvarpið geri kröfu um háskólamenntun þeirra sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja og þeirra sem eru framkvæmdastjórar í þessum fyrirtækjum. Ég vil ítreka enn og aftur að það er ekki nóg að hafa háskólapróf heldur þarf jafnframt að hafa reynslu af starfsemi viðskiptabanka til að teljast hæfur.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu, ekki síst nefndarmönnum í viðskiptanefnd, fyrir að hafa lagt á sig ómælda vinnu við að bæta frumvarpið. Ég mun leitast við að finna leiðir til að koma til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið í þessum umræðum þegar frumvarpið fer inn til viðskiptanefndar.