138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu. Það hefði verið betra að fá hana fyrr, enda sást hve mikil eftirspurnin er eftir henni, það komu fjórir í andsvar og ekki gott að tæma umræðuna þar.

Ég er allsendis ósammála hv. þingmanni um að þessi umræða hafi verið löng. Hún hefur í rauninni verið ótrúlega stutt miðað við að hér er rætt um fjármálafyrirtæki eftir það sem gerðist. Umræðan hefur verið ótrúlega stutt og fengið ótrúlega litla athygli. Hugmyndin með umræðunni í þinginu er sú að betur sjá augu en auga og að menn fái önnur sjónarmið en þau sem koma fram í viðkomandi nefndum.

Ég hef áhyggjur af því hvað hv. þingmaður sagði varðandi staðbundna markaði sparisjóðanna. Það er ekki raunhæft að vera með einhverjar rómantískar hugmyndir um Sparisjóð Strandamanna úti um allt land sem keyrir heim greiðsluseðlana. Það gengur ekki upp. Bankar lifa ekki bara á innlánsstarfsemi, þeir verða líka að vera í útlánum.