138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir andsvarið og svara honum hvað varðar gagnrýni hans á þau ummæli mín um að þetta hafi verið löng umræða. Kannski var aðalvandamálið ekki að þetta var löng umræða, heldur að það virtist vera mjög mikill ágreiningur um frumvarpið. Það kom ekki bara mér á óvart, heldur líka hv. varaformanni viðskiptanefndar. Við höfum ekki orðið vör við þennan mikla ágreining í viðskiptanefndinni, enda vann viðskiptanefnd að frumvarpinu í fjóra mánuði. Nefndin kallaði meira að segja til sín tvisvar hagsmunaaðila. Í seinna skiptið var það til að fara yfir breytingartillögur viðskiptanefndar, svo að viðskiptanefnd heyrði örugglega alla þá gagnrýni sem aðilar úti á markaðnum hefðu á þær.