138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið þó nokkuð margar ræður í þessu máli og hélt að minni umfjöllun um málið væri lokið. En ég sé mig knúinn til að endurtaka hluta úr ræðu sem ég hélt fyrir rúmri viku síðan, þar sem ég fjallaði um hvernig hægt væri að aðskilja viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi með því að nota hina svokölluðu Paul Volcker-reglu. Hún kveður á um að viðskiptabankar megi ekki vera með eigin viðskipti. Ég ruglast í þessu, vegna þess að hv. formaður viðskiptanefndar í ræðu sinni og síðan í andsvari við mig, talaði um að til að aðskilja þessa starfsemi eða gera tilraunir til að skera þarna á milli, þá ætti að banna viðskipti með eigin hluti. Þar vitnaði hún í málsmeðferð sem er í gangi í bandaríska þinginu. Þetta er einhver grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanni. Það sem Paul Volcker-reglan gengur út á, bann með eigin viðskipti, er að viðskiptabanki má ekki taka eins mikla áhættu eins og hefðbundinn fjárfestingarbanki, vegna þess að hann er með innlán og þau má ekki setja í hættu. Reglan snýst um það að búa til bankakerfi þar sem er búið að einangra áhættuna af fjárfestingarbankastarfsemi inni í fjárfestingarbönkum. Þetta veldur mér þó nokkrum óróa. Ég hef talað um það í ræðum að mér finnst frumvarpið bera vott um vankunnáttu og skilningsleysi á því hvernig lög á fjármálamarkaði eru og hvað raunverulega þarf að reyna að einangra, svo koma megi í veg fyrir að þeir hræðilegu atburðir sem gerðust 2008 komi ekki aftur fyrir. Þetta undirstrikaði í rauninni fyrir mér að þingið er ekki alveg með á hreinu um hvað er fjallað hérna og hver sé tilgangurinn.

Þess vegna vil ég hvetja til þess að í stað þess að við förum með þennan bútasaum í gegnum þingið verði gerð úttekt af einhverri alþjóðastofnun, og ég hef bent á OECD í því sambandi, til að skoða lagarammann sem gildir um íslenska fjármálamarkaðinn og til að leiðbeina okkur þingmönnum. Framkvæmdarvaldið virðist ekki geta ráðið við þetta, að leiðbeina okkur þingmönnum um hverju ætti að breyta í lagarammanum á Íslandi.

Ég vík aftur að Paul Volcker-reglunni. Eftir kreppuna miklu í Bandaríkjunum og hrun fjármálamarkaðar þar, voru sett svokölluð Glass-Steagall lög í Bandaríkjunum þar sem fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi var bönnuð með lögum. Síðan var þessu aflétt og þetta rann allt saman. Áhættan jókst í kerfinu og endaði með því að mjög stórir bankar fóru á hausinn í Bandaríkjunum og áhættan varð allt of mikil. Viðbrögðin við þessu eru hin svokölluðu Paul Volcker-lög þar sem eigin viðskipti eru bönnuð. Hugsunin með þeim er að skilja á jákvæðan hátt á milli fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Þetta hefur ekkert að gera með að banna viðskipti með eigin hluti, enda sé ég ekki hverju það getur breytt. Það er engin sérstök áhætta í því fólgin að bankar eigi í viðskiptum með eigið hlutafé, upp að vissu marki. Ég vil því hvetja hv. formann viðskiptanefndar til að kynna sér vel hvað er að gerast í reglugerðarbreytingum og lagabreytingum á alþjóðamörkuðum áður en þetta frumvarp fer í gegn. Þetta dæmi sem kom fram í dag er mjög gott dæmi um að menn vita ekki hvað þeir gera.