fjármálafyrirtæki.
Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að menn eigi að læra af mistökum. Mér er vel kunnugt um það að formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, hefur talað fyrir þessum breytingum á lögunum. Við viljum skoða með hvaða hætti það verði best gert og ég lýsi því yfir að ég er stuðningsmaður þess að málin verði tekin til athugunar í þessu samhengi.
Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að ýmsir voru með efasemdir um málið í ljósi Evrópulöggjafar. Það var sagt á sínum tíma í umræðu um þetta mál. En af því að hv. þingmaður skírskotar til andans í umræðunni og í lagagerðinni allri í Evrópu á þessum tíma, þá var það eiginlega sammerkt með heiminum öllum að hann var mjög markaðssækinn, vildi afnema reglugerðarverk og hömlur á markaði. Það var fjármálaráðherra Clintons á sínum tíma sem afnam síðustu leifar Glass-Steagall löggjafarinnar og hann lýsti því einhvern tíma yfir að þetta væri það sem hann sæi mest eftir að hafa gert.
Hvenær sagði hann þetta og af hvaða tilefni? Jú, það var þegar bankakerfið var að hrynja vestan hafs og austan eða farið að hrikta illilega í því, þá voru menn farnir að vakna að nýju til vitundar um mikilvægi þess að reisa varnarmúra fyrir almenning inni í þessum fjármálakerfum og eftir því sem ég skil best hyggja menn líka að því innan Evrópusambandsins. Ég tek undir með hv. þingmanni og formanni viðskiptanefndar þingsins, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem hefur talað mjög (Forseti hringir.) eindregið í þessa veru inni í þingflokki okkar og í viðskiptanefnd og vænti þess að við sameinumst um að reyna að koma þessum breytingum í íslenska löggjöf, (Forseti hringir.) því fyrr, því betra.