138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom hingað upp og talaði mest um ráðningarmál ríkisstjórnarinnar en kom líka aðeins inn á hugtakið „kynjuð hagstjórn“. Ég vildi koma hingað upp til þess að taka undir sumt af því sem hann sagði en líka til að upplýsa hann aðeins betur um þetta hugtak.

Ég bar upp fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um það hvernig gengi að innleiða kynjaða hagstjórn. Mér fannst mjög áhugavert að hann svaraði því á þann veg að búið væri að ráða verkefnisstjóra tímabundið án auglýsingar, en bætti síðan við að það væri hins vegar fimm til sex ára verkefni að innleiða þetta í ríkisfjármálin. Það er því mjög einkennilegt að ekki skuli hafa verið ráðinn fastur starfsmaður til þess að fara í þetta verkefni, þetta er risaverkefni.

Ástæðan fyrir því að mér hefur fundist þetta mjög áhugavert eru tvö dæmi sem ég get nefnt úr minni nefnd, menntamálanefnd, sem tengjast þessu hugtaki. Annars vegar það að ríkisstjórnin fór í að skera niður fjarnám. Í þeim upplýsingum sem ég aflaði mér frá ráðuneytinu kom í ljós að sá niðurskurður bitnaði aðallega á konum því að það eru fyrst og fremst konur sem stunda fjarnám samhliða vinnu.

Hitt dæmið eru uppsagnirnar á RÚV. Þar virtist fyrst og fremst vera horft til þess að segja upp konum. Einnig má skoða það út frá kynjaðri hagstjórn þegar farið er að skera niður ýmsa bitlinga eins og óunna yfirvinnu og bílapeninga, sú aðgerð mun væntanlega helst bitna á körlum af því að þeir hafa yfirleitt fengið þessa bitlinga. Ég tel því mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að okkur hefur gengið afar illa að fjölga konum í fjárlaganefnd, að við höfum kynjasjónarmið í huga þegar við ráðstöfum peningum og reynum að skera niður á þann hátt að það bitni nokkuð jafnt á kynjunum. (Forseti hringir.)