138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það væri kannski ráð að forseti stæði fyrir námskeiði fyrir þingmenn um femínisma og kynjaða hagstjórn, það væri til upplýsingar fyrir marga. Kynjuð hagstjórn og kynjuð fjárlagagerð taka við af hinni kynlegu hagstjórn og kynlegu fjárlagagerð sem stundaðar hafa verið í þessum sal mjög lengi, þar sem vægi hagsmuna hefur vægast sagt verið ójafnt, lítið tillit tekið til þarfa og hagsmuna kvenna og barna, sem þetta snýst nú um eins og allur femínismi gerir, og mjög svo úthlutað með hagsmuni karla og landsbyggðar að leiðarljósi. Í gegnum tíðina hefur það verið niðurstaða hinnar kynlegu fjárlagagerðar og kynlegu hagstjórnar sem stundaðar hafa verið á hinu háa Alþingi.

Innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar er því ekki bara tímabær, hún er lífsnauðsynleg þessu samfélagi í alla staði og hluti af endurreisninni sem við þurfum öll að standa að, í anda samvinnu og samstöðu eins og varaformaður Framsóknarflokksins talaði um hér áðan. Reyndar hef ég það nett á tilfinningunni að Framsóknarflokkurinn eigi sér marga ólíka talsmenn í þessum sal af því að varaformaðurinn talar um samvinnu og samstöðu. Ég hef aldrei heyrt formann Framsóknarflokksins tala í þessum sal um samvinnu og samstöðu alþingismanna eða Alþingis, aldrei.

Vinnubrögðin, traustið, ráðningarnar, mannskapurinn, hvernig við vinnum vinnuna okkar — auðvitað byrjar það allt hér eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti okkur á. Það á við um alla, þingmenn allra flokka. Ef við viljum endurvekja traust almennings, kjósenda, á þessum vinnustað, á löggjafarsamkomunni, byrjum við á sjálfum okkur.