138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hætti mér ekki út í að fara að ræða kynjaða fjárlagagerð við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ég held að niðurstaðan sé mjög einföld — við erum greinilega algjörlega ósammála um þessa nálgun á hlutina. Það sem ég var að benda á hér áðan er það að á sama tíma og við erum að ráða án auglýsingar verkefnisstjóra til að sinna kynjaðri fjárlagagerð, í því ástandi sem er í landinu í dag, erum við að reka konur út af sjúkrastofnunum og heilbrigðisstofnunum, segja þeim upp til þess að draga saman. Það var það sem ég var að benda á. Þegar borð verður fyrir báru geta menn farið í einhver slík verkefni sem ég tel reyndar alveg fáránleg. Látum bara aðra hafa aðrar skoðanir á því.

Mér finnst þetta vera sóun á peningum og sérstaklega í ljósi þeirra tíma sem nú eru. Hvað sagði líka hv. þm. Eygló Harðardóttir? Hún benti á að þetta væri fimm ára vinna, en tímabundið er ráðið í starfið, í örfáa mánuði. Ég minni á að hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á það síðastliðið sumar, og þekkir það mjög vel af eigin reynslu, hvernig framkvæmdarvaldið gerir þetta. Fyrst ræður það tímabundið starfsmann, þann sem það vill fá inn í framkvæmdarvaldið. Þegar sá tími er liðinn er auglýst eftir starfsmanni með reynslu. Þá er sá sem ráðinn var tímabundið kominn með reynslu þannig að menn hafa mjög góðar aðferðir til þess að gera þetta.

Fyrst og fremst var ég að kalla á þetta. Ég kallaði eftir viðbrögðum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar og ég þakka honum ærleg og góð svör. Ég heyri að við erum algerlega sammála um þessa hluti. En á sama tíma kemur upp í huga minn Heilbrigðisstofnunin Blönduósi. Þar fer mikil alþýðuhetja, Bóthildur Halldórsdóttir, fyrir hollvinasamtökum heilbrigðisstofnana og bendir á hvað er að gerast á þeirri stofnun. Það er verið að skera niður og reka fólk þar út og draga saman þjónustu við íbúana á sama tíma og verið er að ráða verkefnisstjóra til að sinna kynjaðri fjárlagagerð. Ég segi það virðulegur forseti, (Gripið fram í.) — þú verður að fyrirgefa orðbragðið — mér finnst þetta helvítis rugl.