138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir þær umræður sem farið hafa fram hér í dag. Þessi liður í dagskrá þingsins hefur oft sætt miklum árásum af hálfu þingmanna sem finnst það mjög leiðinlegt og tilgangslaust röfl sem hér fer fram. Ég leyfi mér að mótmæla því í enn eitt sinn. Mér finnst mjög mikilvægt að menn geti komið hingað og haldið uppi sjónarmiðum sínum í mismunandi málum og komið mikilvægum punktum á framfæri. Það gerði hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þegar hún talaði um vinnuumhverfið á Alþingi, hvernig menn mæta í nefndir og hvernig starfinu er háttað.

Nú er þingið að verða búið. Það eru tvær vikur þar til við förum í sumarhlé. Hér bíða mýmörg mál afgreiðslu. Það kemur fyrir dag eftir dag að þingmönnum ber að sitja tvo nefndarfundi í einu. Það gengur einfaldlega ekki upp. Þegar allir þingmenn eru hlaupandi á milli nefnda er mjög erfitt að kalla inn varamann fyrir sig í nefndir. Þetta er verklag sem gengur ekki upp og við þurfum að skoða það.

Vegna orða hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um það að karlar á landsbyggðinni ráði lögum og lofum hér í þinginu og öllu sé stjórnað með hagsmuni þeirra að leiðarljósi, langar mig að mótmæla því sem kona af landsbyggðinni. Ég tel einfaldlega að þetta sé ekki rétt. Það er engin slík slagsíða á þessu þingi, ég get ekki séð það og ég get ekki heyrt að færð hafi verið nein rök fyrir því í máli hv. þingmanns. Hv. þingmaður hafði á orði að við ættum að byrja á sjálfum okkur til þess að auka virðingu Alþingis en ég tel að sú ræða sem var flutt hér áðan hafi síst verið til þess fallin að gera það með þeim sleggjudómum sem þar komu fram.