138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Öryggiskerfi til sjós og lands er lykilatriði. Fyrir nokkrum dögum varð það slys á einum af togurum Vestmannaeyjaflotans að sjómaður missti nánast aðra höndina, er með stórskaddaðan handlegg. Þegar var hringt eftir sjúkraflugi en þá var klukkan tíu mínútur yfir tólf. Sjúkraflugvél lenti í Vestmannaeyjum þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö. Ekki er búið að bjarga því sem hefði verið hægt að bjarga hjá þessum sjómanni og það hefði gengið mun betur að sögn lækna ef hann hefði komist fyrr í hendur þeirra.

Ég vek athygli á þessu vegna þess, virðulegi forseti, að fyrir skömmu gerði heilbrigðisráðuneytið samning við Mýflug á Akureyri um sjúkraflug frá Vestmannaeyjum, sem hefur verið bundið staðsetningu vélar í Vestmannaeyjum um áratugaskeið því að Heimaey er móðurskip flotans fyrir Suðurlandi, stærsta hluta flota landsmanna. Þetta gengur einfaldlega ekki. Ef til að mynda hefði verið um að ræða bráðatilfelli, hjartaáfall eða annað slíkt, hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, formann heilbrigðisnefndar, hvort hún sé ekki sammála mér um að vinda verði bráðan bug að því að breyta þessari stöðu og koma þessu í horf sem er boðlegt. Það er ekki við Mýflug að sakast, það er gott félag og öruggt, en vegalengdirnar eru þannig og aðstæður að það gengur ekki annað en að hafa sjúkraflugvél staðsetta í Vestmannaeyjum. Þetta er a.m.k. mjög alvarleg viðvörun, þetta getur ekki gengið svona. Þetta er ekki hugsað til enda á skrifborðinu hér í embættiskerfinu í Reykjavík og (Forseti hringir.) þess vegna þarf að bregðast við nú þegar.