138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka heils hugar undir hvert orð sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði í ræðu sinni en ég kem hingað nokkuð hugsi yfir úrslitum síðustu sveitarstjórnarkosninga, hugsi yfir hlutverki stjórnmálamanna almennt og yfirleitt því að það sem mér sýnist hafa komið upp úr kjörkössunum er í rauninni ekki uppgjör við stjórnmálastefnur, heldur hefur komið upp úr kjörkössunum mikil stjórnmálaþreyta og ergelsi og óánægja í garð stjórnmálamanna. Þar sem maður tilheyrir á þessari stundu þeim hópi er ekki nema eðlilegt að maður velti fyrir sér hvaða þýðingu það hafi, það álit og sú álitsbreyting sem orðið hefur í samfélaginu.

Við skulum líta í eigin barm og velta t.d. fyrir okkur hvernig við höfum hagað vinnubrögðum okkar í þinginu. Þá vil ég tala í framhaldi af og inn í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þar sem hann talaði um að t.d. framsóknarmönnum — og það er tilviljun að ég tek þá sem dæmi — væri mjög í mun að bæta vinnubrögðin í þinginu og hefðu margoft boðið það fram. Ég vek athygli á því í þessu samhengi að málflutningur er hluti af vinnubrögðum. Málflutningur er meðal þess sem við getum kallað vinnubrögð okkar í þinginu. Munnsöfnuðurinn og orðræðan í þingsölum frá því að ég settist á Alþingi eru með þeim hætti að það gefur því miður ekki góða von um vilja og að hugur fylgi máli þegar menn veifa síðan fyrirheitum um að þeir vilji breyta vinnubrögðum sínum. Ég held að við verðum núna, öll sem eitt, að líta í eigin barm (Forseti hringir.) og virkilega vil ég skora á nýja þingmenn í þessum sal að reyna að taka höndum saman hvar í flokki sem þeir standa og endurmeta hvernig þeir vilja haga málflutningi og vinnubrögðum hér.