138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum skelfilegan atburð, árásina á alþjóðlegu skipalestina undan ströndum Gaza. Hún hefur hreyft við mörgum því að þarna sést að enginn er óhultur á þessu svæði. Í raun er þetta einn skelfilegur liður í skelfilegri atburðarás sem hefur varað allt frá því að Gaza var sett í herkví árið 2007. Sú herkví hefur núna varað í þrjú ár með hræðilegum afleiðingum, árásum Ísraelshers á íbúa í kringum áramótin 2008/2009 þar sem ráðist var á skóla, sjúkrahús, lögreglustöðvar, allt gert til að brjóta niður innviði samfélagsins í Gaza. Á sama tíma hefur herkvíin líka haft þau áhrif að stoppaður hefur verið allur innflutningur á svæðið þannig að íbúar á þessu svæði hafa ekki fengið að njóta sjálfsagðra hluta á borð við ljósaperur, kerti, eldspýtur, bækur, hljóðfæri og vaxliti, en fatnaður kom inn á dögunum í gegnum alþjóðlegar stofnanir, dýnur, rúmfatnaður, teppi, pasta, te, kaffi. Allt er þetta á bannlistanum sem ætlað er að brjóta niður fólk á Gaza-svæðinu, ekki bara með beinum árásum heldur líka með algerum skorti sem gerir það að verkum að nú treysta 80% heimila í Gaza á mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Atvinnuleysið er 40%. Þriðjungur barna undir fimm ára aldri þjáist af blóðskorti samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Þau hafa ekki aðgang að vatni eða rafmagni. Þessari skelfilegu atburðarás verður að linna og því fagna ég þeirri umræðu sem hér á sér stað og ég lýsi yfir stuðningi við þá ályktun sem liggur frammi því að það er mál okkar Íslendinga að bregðast við á alþjóðavettvangi og sýna að þetta er ekki líðandi en hefur í raun liðist allt of lengi.