138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög skiljanlegt að þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu sé mikið niðri fyrir og þeir fordæmi þá atburði sem áttu sér stað í gær fyrir botni Miðjarðarhafs. Það hljótum við öll að gera. Við hörmum það öll að þessir atburðir hafi átt sér stað og fordæmum þá harðlega. Í því felst mjög ákveðin afstaða.

Ljóst er að alþjóðasamfélaginu er líka mikið niðri fyrir vegna þeirra. Það má sjá af ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og yfirlýsingum leiðtoga Evrópusambandsins og fjölmargra ríkja, svo sem Rússa, Spánverja, Grikkja og Dana. Frændur okkar Svíar eru eðlilega í sárum vegna málsins.

Þótt sá atburður sem við ræðum um sé hræðilegur er hann því miður ekkert einsdæmi í samskiptum Ísraela og Palestínumanna. Þar hafa mörg ódæðisverk verið framin og á þeim bera báðir deiluaðilar ábyrgð, Hamas-samtökin eins og stjórnvöld í Ísrael. Ég hef sjálfur verið á þessu svæði og upplifað með hvaða hætti þessi vargöld fer með fólkið sem þarna býr. Á þessu ástandi verður að verða breyting og hún verður einungis með því að stofnuð verði tvö sjálfstæð ríki Ísraels og Palestínu.

Fram hefur komið krafa á Íslandi um að Íslendingar slíti stjórnmálasambandi við Ísrael vegna þessara atburða. Ég sé ekki betur en að meiri hluti utanríkismálanefndar vilji ganga lengra í ályktunum sínum en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerði í nótt, ályktun sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera að sinni. Ég tel að við verðum að fara mjög varlega í þeim efnum og er ég þó alls ekki að verja aðgerðir Ísraelsmanna. Í fyrsta lagi er mikið álitamál hvort slit stjórnmálasambands við Ísrael eða viðskiptaþvinganir mundu bæta stöðu þess fólks sem þar býr. Það gæti bitnað á þeim sem síst skyldi. Í annan stað þyrftu íslensk stjórnvöld í framhaldinu að íhuga stjórnmálasamband sitt við önnur ríki þar sem framin eru voðaverk og mannréttindabrot og í þriðja lagi er það svo að vilji íslensk stjórnvöld láta gott af sér leiða (Forseti hringir.) í friðarumleitunum og samskiptum Ísraela og Palestínumanna munu þau ekki ná neinum árangri með því að slíta samskiptum sínum við aðra þjóðina.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar (Forseti hringir.) njótum af sögulegum ástæðum virðingar og velvilja í Ísrael. Þá stöðu eiga íslensk stjórnvöld að nýta til góðra verka og uppbyggingar.