138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér ályktun utanríkismálanefndar í framhaldi af hroðalegri morðárás Ísraelsmanna á hjálparskip í fyrradag. Það er oft búið að ræða og fordæma ísraelsk stjórnvöld vegna framgöngu þeirra í málefnum Palestínu. Það er kominn tími til að stíga skrefinu lengra og grípa til róttækari aðgerða. Ísraelsríki er lýðræðisríki. Stjórnvöld í Ísrael eru kjörin af íbúum landsins. Það er kominn tími til að alþjóðasamfélagið láti íbúa Ísraelsríkis vita af því með afgerandi hætti að alþjóðasamfélagið líður ekki þessa framkomu lengur. Það er kominn tími til að barist verði fyrir alþjóðlegu viðskiptabanni á Ísraelsríki með sama hætti og gert var í Suður-Afríku. Það er kominn tími til að sett verði ferðabann á Ísraelsmenn. Það er kominn tími til að slitið verði á menningarsamskipti við Ísraelsríki á vettvangi íþrótta og á vettvangi t.d. Eurovision. Þannig og eingöngu þannig mun Ísraelsríki hugsanlega, þó ekki endilega, breyta stefnu sinni. Það mun ekki gera það með áframhaldandi fordæmingum og orðskrúði. Það hefur margsýnt sig og margoft verið reynt. Það er ekki hægt að halda áfram endalaust og rembast eins og rjúpan við staurinn og vonast eftir annarri niðurstöðu með sömu aðferðum. Því miður virðast málefnin fyrir botni Miðjarðarhafs vera óleysanleg. Þau er ekki hægt að leysa með gamalkunnum aðferðum. Það þarf að knýja á um breytt stjórnarfar og breytta háttsemi með öðrum hætti. Vonandi munum við í framhaldinu einnig sjá ísraelska stjórnmálamenn og ísraelska hershöfðingja dregna fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag og dæmda í ævilangt fangelsi.