138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega þessari breytingu. Með þessu er Alþingi að gefa mér skýr skilaboð um það að við viljum hafa sparisjóði starfandi á Íslandi. Í staðinn fyrir að vera með bráðabirgðaákvæði eins og var í lögunum núna þar sem starfandi sparisjóðir geta verið með eina milljón evra sem innborgað stofnfé, gefum við nýjum sparisjóðum tækifæri á að hefja rekstur. Við segjum líka með því að þetta sé ekki eitthvert undanþáguákvæði, heldur að við viljum að sparisjóðir geti lifað og dafnað á Íslandi, þeir séu nauðsynlegur hluti af flórunni í fjármálakerfinu. Ég fagna þessari breytingu og ég fagna því líka hvernig við skýrum að þetta sé innborgað stofnfé sparisjóðs og varasjóður. Það er því mjög mikilvægt fyrir framtíðina að fólk hafi möguleika á því að velja sparisjóði sem sínar fjármálastofnanir.