138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því að hér er um að ræða það mál sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson talaði um undir liðnum störf forseta fyrr í dag. Þetta er sama mál og við sjálfstæðismenn höfum kallað eftir upplýsingum um, í það minnsta frá áramótum. Þetta snýst um það hverjir eiga hina nýeinkavæddu banka. Það er alveg ljóst að sú tillaga sem kemur frá meiri hlutanum dugar ekki til. Þá munum við einungis fá lista yfir einkahlutafélög sem enginn veit hver á. Ef við viljum fá að vita hverjir eiga bankana eða hvort einhverjir eru búnir að eignast bankana að stærstum hluta þá verðum við að samþykkja þessa tillögu.

Virðulegi forseti. Við leggjum til að þessi tillaga verði kölluð til 3. umræðu til að við getum farið betur yfir þetta í nefndinni og sannfært alla þingmenn í meiri hlutanum um að þetta sé sú leið sem nauðsynlegt er að fara.