138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi.

Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið eftir 2. umr. í þinginu. Áfram var rætt um hlutverk endurskoðenda og leggur nefndin til tvenns konar breytingar á ákvæðum er varða endurskoðun. Annars vegar er lagt til að endurskoðanda verði skylt að sækja ársfund í félagi og hins vegar að bætt verði við upptalningu í 1. mgr. 58. gr. að endurskoðendum verði einnig skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu mikilvæg atriði sem varða rekstur vátryggingafélags, þá sérstaklega vankanta á innra eftirliti með fjárhag þess. Meiri hlutinn telur brýnt að lög um endurskoðendur verði endurskoðuð.

Einnig eru lagðar til tvær lagfæringar á ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpinu.

Eins og fram kemur í frumvarpinu mega vátryggingafélög frá öðru aðildarríki veita þjónustu hér á landi í samræmi við starfsleyfi sitt sem gefið er út í heimaríki þeirra. Til þess að taka af allan vafa telur meiri hlutinn rétt að árétta að í frumvarpinu er ekki fjallað um félagaform vátryggingafélaga sem veita starfsemi hér á landi á grundvelli starfsleyfis í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, enda mundi slíkt ákvæði stangast á við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að skipuð verði nefnd af efnahags- og viðskiptaráðherra sem móti stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Jafnframt skal taka til skoðunar umgjörð um starfsemi gagnkvæmra tryggingafélaga, þar með talið um gjaldþol, einkarétt, útgreiðslu arðs og slitameðferð. Einnig þarf að taka til umfjöllunar hvort skynsamlegt sé að viðhalda heimildum um eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt.

Frú forseti. Meiri hlutinn telur rétt að skoðað verði hvort lögfesta eigi ákvæði um ábyrgð skuggastjórnenda, annaðhvort í lög um hlutafélög eða eftir atvikum í sérlög eins og t.d. lög um vátryggingastarfsemi.

Undir nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, með fyrirvara, og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Margrét Tryggvadóttir var fjarverandi.