138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

skipan ferðamála.

575. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 75/2005, um skipan ferðamála. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá iðnaðarráðuneyti, Ferðamálastofu, Samkeppniseftirliti, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir frá 14 aðilum.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði tímabundið undanþáguákvæði þar sem Ferðamálastofu er veitt heimild til að lækka tryggingarfjárhæðir sem ferðaskrifstofum er gert að greiða, ef rökstudd beiðni berst um slíka undanþágu vegna forsendubrests í rekstri.

Í annan stað er lagt til að heimild iðnaðarráðherra til setningar reglugerðar verði afmörkuð á skýrari hátt en áður, m.a. um þau atriði er lúta að flokkun leyfa, öryggismálum og eftirliti með leyfishöfum.

Í þriðja lagi er lagt til að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipulagsleyfi leggi fram ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi, sem og að þessir sömu aðilar búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

Iðnaðarnefnd fjallaði um málið og var sjónum einkum beint að undanþáguákvæðinu, sbr. 17. gr. a, sem veitir Ferðamálastofu heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 17. gr. laganna, þ.e. þeim reiknireglum sem notaðar eru við ákvörðun tryggingarfjárhæðar. Ljóst er að mikil röskun varð á rekstri ferðaskrifstofa eftir bankahrun, en við ákvörðun á upphæð tryggingarfjárhæðar vegna yfirstandandi árs er miðað við upplýsingar í ársreikningi ársins 2008, þegar ferðaþjónustan var í mikilli uppsveiflu.

Með breytingunni sem hér er lögð til verður heimilt að miða við ársreikning 2009, sem gefur mun réttari mynd af núverandi rekstrarstöðu fyrirtækjanna.

Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er því til mikilla bóta fyrir ferðaþjónustuna og getur sparað henni háar fjárhæðir. Nefndin telur þó rétt að árétta að um er að ræða heimildarákvæði sem gildir út árið 2010 og skýra ber þröngt. Jafnframt að með þessum breytingum sé ekki vikið frá þeim reiknireglum og viðmiðum sem kveðið er á um í ákvæðinu við mat á tryggingarfjárhæð. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að með þessu undanþáguákvæði sé ekki skert sú neytendavernd sem lögunum er ætlað að tryggja.

Í nefndinni var töluvert rætt um það ákvæði frumvarpsins að þeir sem bjóða upp á afþreyingarferðir þurfi að búa yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu að mati Ferðamálastofu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt svo hægt sé að veita ferðaskrifstofu- eða ferðaskipuleggjanda leyfi til reksturs.

Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að þar sem ekki er nánar útfært hvaða hlutlægu viðmið skuli liggja til grundvallar þessu ákvæði, gæti það leitt til matskenndrar og ógagnsærrar stjórnvaldsákvörðunar. Slíkt ákvæði gæti því leitt til aðgangshindrana á markað og skapað tortryggni um ómálefnalega mismunun. Einnig væri slíkt ákvæði til þess fallið að koma í veg fyrir nýliðun og virka samkeppni í greininni að mati Samkeppniseftirlitsins. Nefndin telur nauðsynlegt að ákvörðun um veitingu leyfis byggi á tilteknum öryggisviðmiðum sem eru skýr og hlutlæg og jafnræðisregla sé höfð að leiðarljósi. Það er niðurstaða nefndarinnar að ákvæðið þarfnist nánari skoðunar og leggur hún til að það verði fellt brott.

Nefndin telur hins vegar rétt að árétta að iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir ákvæði laga um skipan ferðamála. Sú nefnd er með til skoðunar hvort gera þurfi frekari breytingar á lögunum og hefur m.a. til athugunar öryggismál, ekki síst í samhengi við ferðaþjónustu á hálendinu, og skilyrði fyrir veitingu leyfa.

Rík rök hníga í þá átt að setja þurfi aðilum í ferðaþjónustu skýrari verklagsreglur, byggðar á faglegu áhættumati og viðbragðsáætlunum, í því skyni að auka öryggi neytenda, m.a. í hálendisferðum og öðrum afþreyingarferðum. Það kom skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar að mikið vantar upp á að öryggiskröfur til skipuleggjenda hálendisferða séu sambærilegar við það sem t.d. tíðkast varðandi ferðalög á sjó, þar sem fylgt er ströngum verklagsreglum um öryggisútbúnað og fleira.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að g-liður 1. gr. falli brott.

Einhugur var um málið í nefndinni og rita allir nefndarmenn iðnaðarnefndar undir þetta álit.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þá góðu samstöðu sem var um þetta mál í nefndinni.