138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Þetta er þingskjal nr. 1147.

Nefndin fékk á sinn fund skrifstofustjóra lagasviðs mennta- og menningarmálaráðuneytisins, formann Félags íslenskra framhaldsskóla, varaformann Kennarasambands Íslands og fulltrúa frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.

Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi framhaldsskólakennara, Félagi íslenskra framhaldsskóla og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með frumvarpinu er ætlunin að veita nauðsynlegt svigrúm til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í ríkisútgjöldum til framhaldsskóla og bregðast við ábendingum um mikilvægi þess að hafa áfram í lögum ákvæði um skólasöfn.

Í 1. gr. er ráðherra fengin heimild til að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum framhaldsskóla.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda verði 175 í stað 180. Samkvæmt gildandi lögum, nr. 92/2008, skal árlegur fjöldi vinnudaga nemenda eftir 1. ágúst 2011 að lágmarki vera 180 dagar, sbr. 1. mgr. 15. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í gildandi lögum.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra geti með samningi falið skóla eða öðrum aðila umsýslu, gerð og skráningu samninga um vinnustaðanám og eftirlit með þeim. Með lögum nr. 92/2008 kom inn nýmæli þess efnis að auka ætti ábyrgð framhaldsskóla á að nemendur þeirra fengju vinnustaðasamning til að geta lokið námi sínu við skólann, sbr. 28. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða I. Í athugasemdum við þá grein frumvarpsins kemur fram, að nefnd um endurskoðun laga um framhaldsskóla hafi bent ráðherra á að stofna svokallaðan vinnustaðanámssjóð til að tryggja vinnustaðanámi framgang. Í athugasemdum við það frumvarp sem nú er til meðferðar, kemur enn fremur fram að slíkur sjóður sé ein meginforsenda þess að einstakir skólar geti borið ábyrgð á gerð sérstaks samnings um vinnustaðanám nemenda.

Með þessu frumvarpi er fallið frá þessari skyldu og í stað hennar er ráðherra veitt fyrrgreind heimild.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í öllum framhaldsskólum skuli gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns. Er hér um að ræða nánast samhljóða ákvæði eldri laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, en ekki er að finna sérstakt ákvæði um skólasöfn í núgildandi lögum. Við setningu þeirra laga var þó almennt gert ráð fyrir því að skólasöfn væru í framhaldsskólum sbr. 5. mgr. 8. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið starfsfólks skólasafna o.fl., sbr. reglugerð nr. 1100/2007. Þá er í 5. gr. frumvarpsins framhaldsskólum veittur frestur til 1. ágúst 2015 til að setja sér námsbrautarlýsingar skv. 35. gr. laganna um framhaldsskóla.

Með gildistöku laga nr. 92/2008 voru gerðar þær breytingar að mennta- og menningarmálaráðuneytið skyldi frá 1. ágúst 2011 einungis gefa út almennan hluta aðalnámskrár, sbr. 21. gr. laganna, en hinn hluti aðalnámskrár byggist á námsbrautarlýsingum skv. 23. gr. sem skólarnir skulu setja sér og hlotið hafa staðfestingu ráðherra.

Nefndin telur að í 1. gr. frumvarpsins sé um að ræða töluvert opna heimild til handa ráðherra. Það er álit nefndarinnar að úrræði sem þetta skuli fyrst og fremst vera nýtt þegar aðstæður eru þannig að leysa megi tímabundinn vanda með því að einn skólameistari stýri fleiri en einum skóla eða þegar um svæðisbundna hagsmuni er að ræða. Við slíka tilhögun verður þó að gæta þess að fjarlægð skólameistara frá þeim skóla sem hann stýrir eða fjöldi nemenda hafi ekki neikvæð áhrif á faglegt starf skólanna og skólaþróun. Skólameistarinn ber ábyrgð á faglegu starfi og gæta verður þess að aðstæður hamli ekki eða komi í veg fyrir regluleg samskipti hans við kennara og aðra starfsmenn, eftirlit með kennslu eða endurgjöf og hvatningu til nemenda og starfsmanna.

Það er álit nefndarinnar að ekki sé rétt að tengja lesaðstöðu nemenda, þar sem aðgangur er að upplýsingaritum á skólasafni, við húsnæði skólasafns heldur starfsemi þess. Þar með er tekinn allur vafi af að lesaðstaða sé ekki bundin við skólasafnið sjálft, enda er í 1. mgr. greinarinnar gert ráð fyrir að veita megi þjónustu skólasafns með öðrum hætti, t.d. í safni á vegum sveitarfélags.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Að við 4. gr. í stað orðsins „húsnæði“ í 3. málsl. 2. mgr. efnisgreinarinnar komi orðið: starfsemi.

Hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifuðu, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Skúli Helgason og Óli Björn Kárason.