138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

opinberir háskólar.

579. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu verður sú breyting að opinberir háskólar geta ekki tekið sérstakt gjald af nemendum sem stunda grunnnám utan hefðbundins kennslutíma. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir að háskólinn geti boðið upp á nám utan hefðbundins kennslutíma og margar háskóladeildir gera það ýmist í staðnámi, dreifnámi eða fjarnámi.

Aðalhugmyndin með breytingu á 3. gr. er að draga fram með skýrum hætti það hlutverk opinberra háskóla að miðla fræðslu til almennings og veita samfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar og þarna er verið að vísa til samfélagslegrar ábyrgðar fagmanna innan skólanna. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, 8. bindi, er einmitt fjallað um það að auka þurfi þetta samfélagslega hlutverk fagmannanna. En svo er það líka þannig að á mörgum fræðasviðum eru allir sérfræðingar landsins innan háskólanna.

Mig langar því að biðja hv. þm. Óla Björn Kárason að útskýra betur fyrir mér hvernig það að leggja áherslu á þetta hlutverk háskólanna útvatni hlutverk þeirra. Ég bið hann að útskýra það betur fyrir mér.