138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að frumvörpin sem liggja fyrir hjá heilbrigðisnefnd eru ekki mörg en þetta frumvarp hefur ásamt öðrum verið unnið af kostgæfni. Ég tel að það fari fyrir því eins og frumvarpi um fjármálafyrirtæki sem við afgreiddum í dag en þar var í raun og veru alveg nýtt frumvarp komið fram. Þegar málin eru skoðuð gaumgæfilega verður viðkomandi nefnd, í þessu tilfelli heilbrigðisnefnd, að vega það og meta hvort þau rök sem færð eru fyrir lagabreytingum standist skoðun. Vissulega komu fram rök bæði með og á móti þessu frumvarpi eins og það var en ég tel að þó svo að við verðum að standa á bremsunni hvað varðar rekstrarkostnað og stöndum frammi fyrir miklum niðurskurði megum við ekki horfa fram hjá því að við berum líka mikla faglega ábyrgð.

Nefndin horfði til faglegrar ábyrgðar og ég tel að við þurfum að horfa til þess að hægt hefur verið að gera miklar skipulagsbreytingar fram til þessa og enginn hefur í sjálfu sér kvartað undan því að núgildandi lög hafi verið hamlandi nema heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sem taldi að þau hömluðu stærri rekstrareiningum. Ef í ljós kemur að þetta er vanmetið hjá nefndinni og það verður að gera einhverjar frekari ráðstafanir og ganga svo langt í niðurskurði að það bitni á faglegri ábyrgð og þjónustu, líkt og ábendingar komu um, þá er þar kominn nýr kafli (Forseti hringir.) sem við verðum að taka á.