138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. formaður viðskiptanefndar, Lilja Mósesdóttir, fór ágætlega yfir efnisatriði frumvarpsins hér áðan. Margt kom þó á óvart í umfjöllun nefndarinnar og ég ætla að gera það að umfjöllunarefni.

Í fyrsta lagi hlýtur það að koma þingheimi spánskt fyrir sjónir, í það minnsta hv. nefnd, að frumvarp þetta er gert til að uppfylla samning sem var gerður 15. desember sl. Þá var gert samkomulag milli kröfuhafa Landsbanka Íslands um uppgjör á milli hans og nýja Landsbankans. Nú er ég ekki að segja, virðulegi forseti, að það hafi verið óeðlilegt, ég legg engan dóm á það, en það hefði þótt eðlilegra ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði kannski minnst á það í framsögu sinni. Það var ekki fyrr en hv. viðskiptanefnd var búin að fjalla um málið í dágóðan tíma að þetta var upplýst. Kjörin á skuldabréfi nýja Landsbankans væru ekki eins og þau eru nema vegna þess að við erum að fara að samþykkja þetta frumvarp. Því var lofað að klára þetta 15. apríl á þessu ári, síðan var það framlengt til 26. maí og síðan 26. júní. Ég veit ekki til þess að neinn hafi vitað af þessu fyrir utan þá sem gerðu samkomulagið og ekki sáu hæstv. ráðherrar ástæðu til þess að upplýsa þingheim um þetta. Þess vegna var það upplýst af þeim sem veittu umsagnir að ef við vildum ekki ganga frá þessu máli eins og það liggur fyrir hér mundum við setja nýja Landsbankann í fullkomið uppnám og mikið meira en það. Þetta voru í það minnsta fréttir fyrir okkur sem vorum í nefndinni, ég veit ekki hvort einhverjir hv. þingmenn hafa vitað af þessu.

Það kom líka fleira fram í umfjöllun um málið í nefndinni, t.d. að þetta skuldabréf, sem er upp á 280 milljarða, gangi fram fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Það þýðir að ef nýi Landsbankinn fer á höfuðið — nú held ég að enginn útiloki lengur að banki geti farið á höfuðið, ýmsir hafa áhyggjur af nýrri bankakreppu úti í hinum stóra heimi og það getur svo sannarlega komið fyrir hér líka — á Tryggingarsjóður innstæðueigenda ekki forgöngu í það bú þannig að hann verður algjörlega að reiða sig á sína eigin sjóðasöfnun, sem er engin eins og er.

Við erum að ræða frumvarp um innstæðutryggingarsjóð. Það hefur verið reiknað út hvað það tæki langan tíma fyrir þann tryggingarsjóð, miðað við hækkað iðgjald og það frumvarp sem liggur fyrir núna, að ná upp í þá stærð að hann gæti greitt út innstæður Landsbanka Íslands, sem er stærsti innstæðubankinn á Íslandi. Virðulegi forseti, það tæki 96 ár.

Þegar við þingmenn Sjálfstæðisflokksins tölum um að við þurfum að ræða betur um fjármálamarkaðinn og hvernig við ætlum að byggja hann upp er þetta eitt af þeim stóru málum sem þarf að ræða. Nú fáum við alltaf að heyra að þetta séu tilskipanir frá Evrópusambandinu sem við þurfum að uppfylla. Ég var að fá í hendurnar frétt sem var sett inn á vef Morgunblaðsins kl. 16.44, þetta er erlend frétt frá fréttastofunni AFP. Þar kemur fram að Danir séu að afnema ótakmarkaða ríkisábyrgð. Brian Mikkelsen viðskiptaráðherra Danmerkur segir, með leyfi forseta:

„Við erum eitt af fyrstu löndum Evrópusambandsins sem innleiðir sérstaka útgönguleið hvað varðar tryggingu ríkisbanka.“

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekkert meira um þetta mál en að ég sá þessa frétt áðan en í það minnsta held ég að þetta sýni að við þurfum aðeins að fara að skoða hvað er að gerast annars staðar.

Áhyggjur mínar eru einfaldlega þær að við séum ekki að skapa umhverfi sem komi okkur frá þeirri stöðu sem við vorum í hvað varðar banka og fjármálafyrirtæki. Ég get ekki séð annað en að við séum að byggja upp umhverfi þar sem skattgreiðendur verði með alla ábyrgðina í sínu fangi og umfjöllun um þetta mál dró ýmislegt fram hvað það varðar. Nú getur vel verið að við séum að reyna að klára mál hratt og viljum ljúka við þau en þetta mál er af þeirri stærðargráðu að við verðum að ræða það. Sömuleiðis hljótum við að spyrja hæstv. ráðherra af hverju ekki var upplýst um þetta samkomulag sem var gert 15. desember, en það er ástæðan fyrir því að verið er að samþykkja þetta frumvarp núna.

Það er ástæða fyrir því að ég er alltaf að endurtaka mig og segja að við viljum sjá breytt vinnubrögð. Við þurfum breytt vinnubrögð því að það hafa í það minnsta engin málefnaleg rök komið fyrir því að sú leið sem við förum núna varðandi uppbyggingu á bankakerfinu, umhverfi fyrir banka og fjármálafyrirtæki, sé öðruvísi en svo að það þýði fullkomna ríkisábyrgð á öllu kerfinu. Það liggur nefnilega fyrir og er eitt af því sem kom fram í umfjöllun nefndarinnar, þó að það varði ekki beinlínis þetta mál, að allar líkur eru á því að í nánustu framtíð verði íslenskir bankar ekki fjármagnaðir nema þannig að fjármögnunin verði, eins og við gerum hér, með veð á undan innstæðutryggingarsjóði. Það er það sem við horfum fram á. Hvað þýðir það? Það þýðir að innstæðutryggingarkerfið verður meira og minna að byggja á sjóðasöfnun og eins og ég nefndi tekur það nærri 100 ár ef við ætlum að ná upp í sjóð fyrir innstæðum í einum af þremur viðskiptabönkunum. Í mínum huga er málið einfalt, þetta gengur ekki upp.

Mér þykir leitt að þessi vinnubrögð hafi verið eins og hér kemur fram. Mér þótti vont að uppgötva það þegar umsagnaraðili, jafngóður og hann er, kom fyrir nefndina og upplýsti okkur um samkomulag sem enginn hafði sagt okkur frá. Samkomulagið, sem var kynnt í viðskiptanefnd á sínum tíma án þess að minnst væri einu orði, gerði ráð fyrir skuldabréfi með ákveðnum kjörum, sem gengið var frá, en það gleymdist að segja frá því að þingið þyrfti að ganga frá smáreddingu.

Virðulegi forseti. Þetta mál sýnir okkur að við eigum mjög mikið verk óunnið þegar kemur að fjármálafyrirtækjunum og umhverfi þeirra. Sem betur fer höfum við lagt mikla vinnu á okkur í hv. viðskiptanefnd. Sú vinna fer ekki frá okkur en það er mjög mikið eftir. Mál eins og innstæðutryggingarnar — sem eru risastór, þau verða ekki stærri — eru ekki bara óafgreidd heldur liggur fyrir að þær áætlanir sem eru til staðar ganga ekki upp. Við Íslendingar erum í þeirri stöðu núna að við megum ekki við miklum áföllum á ríkissjóð. Ef við höldum ekki vel á spilunum getum við verið að tala um gríðarlegt högg á ríkissjóð sem gæti þýtt að við misstum jafnvel efnahagslegt sjálfstæði okkar. Þetta mál eitt og sér er auðvitað ekki af þeirri stærðargráðu en það tengist mörgu öðru sem við verðum að ræða og fara yfir. Ég treysti því að við munum gera það og vinna okkur að sameiginlegri niðurstöðu.