138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ætla að reyna að svara spurningum hans.

Það var ekki upplýst af hverju þessi leynd væri. Það lá náttúrlega fyrir að menn þekktu skuldabréfið og lögðu mikið upp úr því þegar þetta var kynnt á sínum tíma að mjög góð kjör væru á því, það var mat þeirra sem gerðu þennan samning. Það kom ekkert fram um það af hverju menn hefðu unnið þetta með þessum hætti eða um allar dagsetningarnar um það hvenær ætti að ganga frá lögunum, sú fyrsta var 15. apríl. Við fengum engar almennilegar upplýsingar um af hverju ekki var upplýst um það þegar málið var kynnt, hvorki í þinginu né í þingnefndinni.

Síðan er það stóra málið sem hv. þingmaður nefnir og varðar þetta nýja orðalag í tilskipun Evrópusambandsins sem er erfitt að túlka með öðrum hætti, alla vega við fyrstu sýn, en svo að farið sé fram á ríkisábyrgð á innstæðutryggingarkerfinu. Þess vegna var þessi frétt sem er nú í Morgunblaðinu mjög áhugaverð en þar segir að menn séu að nota útgönguleið hvað varðar tryggingu ríkisbanka og í Danmörku náðist þverpólitísk samstaða um að fara þá leið.

Í mínum huga erum við á byrjunarreit að vinna þetta og reyna að finna flöt á því hvernig við getum komið okkur út úr beinni eða óbeinni ríkisábyrgð, því það er nú þannig að menn í öllum þjóðlöndum hafa komið inn með ríkispeninga til að bjarga stórum fjármálastofnunum og hafa fyrir því ákveðin rök en við getum ekki haft þetta þannig. Við getum ekki haft það þannig að beint eða óbeint sé ríkisábyrgð á stórum fjármálastofnunum.