138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að skynsamlegt væri að taka þetta mál aftur inn í nefndina og fara aðeins betur yfir þennan þátt mála og ég legg það til.

Varðandi innstæðutryggingarkerfið, sem við verðum að ræða, þá er það rétt sem hv. þingmaður sagði varðandi gömlu tilskipunina að nú eru uppi hugmyndir um að hækka trygginguna hjá Evrópusambandinu úr 20 þús. evrum í 50 þús. evrur. Hugmyndin er síðan að tryggingakerfi séu á milli fjármálastofnana og þegar fjármálastofnun fer yfir á innstæðutryggingarsjóðurinn forgang á við aðra. Það sem við erum að gera hér er að koma í veg fyrir þann forgang, að þetta skuldabréf upp á 280 milljarða eigi forgang á undan innstæðutryggingarsjóðnum. Þannig að sjóðurinn verði þá bara að reiða sig á sjóðasöfnun og það liggur alveg fyrir að það eitt dugar ekki til nema við séum að hugsa í árhundruðum en ekki í árum. Þetta er myndin sem blasir við okkur núna.

Virðulegur forseti. Þetta gengur ekki upp, þetta bara gengur ekki upp. Vandinn er sá að þótt þetta sé hugsað sem neytendavernd fyrir þá sem eiga í bönkum, m.a. skattgreiðendur, þá eru þeir bara rukkaðir með öðrum hætti, með beinni og óbeinni ríkisábyrgð. Þetta er vítahringur sem við verðum að rjúfa. Þetta er ekki séríslenskt vandamál. Þess vegna eru m.a. Danir frændur okkar augljóslega að taka á þessu og við þurfum að skoða hvað þeir hafa gert og hvað aðrar þjóðir eru að gera því að við getum ekki gengið svo frá málinu að skattgreiðendur beri þessa gríðarlegu (Forseti hringir.) áhættu.