138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að leiðrétta það sem var óskýrt áðan varðandi lokafjárlögin. Það eru auðvitað þau sem við erum að afgreiða. Það sem er ekki í lagi og verður að koma í lag er að lokafjárlög séu lögð fram með ríkisreikningi og að þau liggi fyrir áður en gengið er frá fjárlögum næsta árs. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þær bækur sem ég sýndi hér áðan eru mikilvægar forsendur við fjárlagagerð á hverjum tíma og veita gríðarlega miklar upplýsingar en gagnsemi þeirra er miklu minni ef þær eru langt á eftir í tíma.

Það er kannski handvömm að ekki sé tekið fram að fjarvera á þessum fundi hafi einmitt verið þannig að þar hafi verið sex þingmenn sem skrifuðu undir meirihlutaálitið. Tveir skiluðu séráliti, eins og kemur væntanlega fram hér síðar á fundinum, en allir aðrir hefðu í sjálfu sér stutt málið. En það verður að segjast eins og er að það er misgóð mæting á fundi. Ég held að allir hafi komið að þessu máli og fjallað ítarlega um það úr nefndinni nema tveir þingmenn. Ég hef svo sem verið talsmaður þess, sem kom fram hér fyrr í dag, að birtir væru mætingarlistar úr nefndunum þannig að menn gætu fylgst með hverjir væru á fundum og hvenær þó að taka verði tillit til þess að erfitt geti verið fyrir nefndarmenn sem gegna formennsku í öðrum nefndum að mæta á tveimur stöðum á sama tíma.

Það er sem sagt mér að kenna að fjarvera er ekki tilgreind og það hefði auðvitað verið hægt að sjá til þess að þetta væri tekið til lokaafgreiðslu á fundi þar sem fleiri voru mættir vegna þess að almennt er góð þátttaka í vinnu fjárlaganefndar og nefndarmenn afar virkir, það þarf ekki að kvarta yfir því, eins og ég segi, nema með fáum undantekningum.